„Örugglega Íslandsmet“

Framleiðslustjórinn Tryggvi Bjarnason og gæðastjórinn Þóra Jörundsdóttir ásamt þjarkinum sem sér um að raða öllu samviskusamlega á bretti.

Rúmt ár er síðan slátrun hófst hjá Arnarlaxi á Bíldudal og hefur framleiðslan aukist jafnt og þétt með hverjum mánuðinum. Í gær var slátrað og pakkað 65 tonnum af ferskum laxi og segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlaxa, að þetta sé örugglega Íslandsmet. „Þetta gerir fjóra flutningarbíla sem fóru frá Bíldudal full lestaðir af gæðalaxi til útflutnings,“ segir Víkingur. Flutningarbílarnir fara ýmist til Seyðisfjarðar, Þorlákshafnar, Reykjavíkur og Keflavíkur þar afurðirnar eru fluttar á erlenda markaði. Verðmæti afurðanna þennan eina dag eru um það bil 55 milljónir króna.

Víkingur segir að umreiknað í matarskammta þá er útflutngingur gærdagsins 227.000 máltíðir sem dreifast um allan heim.

Víkungur Gunnarsson. Mynd: Helgi Bjarnason.

Fyrirtækið slátrar á milli 250-300 tonnum á viku þessar vikurnar. Í fyrra slátraði Arnarlax 6.000 tonnum og í ár verður framleiðslan 10.000 tonn. „Þessi aukna framleiðsla þýðir að við þurftum nýjan brunnbát og vorum að fá einn til bráðabirgðar, en það kemur nýr bátur til okkar í næsta mánuði.“

En það er ekki bara Arnarlax sem þarf að stækka við sig í tækjum og tólum til að mæta nýjum tímum á Bíldudal og sunnanverðum Vestfjörðum. Víkingur segir að stjórnvöld verði að girða sig í brók með uppbyggingu innviða.

„Það er orðið bráðnauðsynlegt fara í uppbyggingu á Dynjandisheiði og þess vegna kom það eins og blaut tuska framan í okkur þegar allt framkvæmdafé í heiðina var skorið niður í fjárlögum,“ segir Víkingur.

Í dag þurfa flutningabílar sem fara með afurðir frá Bíldudal að keyra yfir Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði og er það 45 km lengri leið en að fara stystu leið um Dynjandisheiði úr Arnarfirði yfir á Flókalund sem er ófær stóran hluta ársins.

„Ef við miðum við framleiðsluna eins og hún er hjá okkur í dag sem fer í 4-5 flutningarbílum á dag, þá kostar þessi aukarúntur okkur 41 milljón á ári. Fyrir utan kostnaðinn þá er þetta öruggari leið, um einn fjallveg að fara í stað þriggja. Hérna erum við bara að tala um eittt fyrirtæki, við þetta bætast áhrif á íbúa og ferðamenn,“ segir Víkingur.

DEILA