Mýraboltinn, Vasulka og FM Belfast á Skjaldborg

Skrúðgangan á Skjaldborgarhátíðinni er með þeim hressari. Mynd af fésbókarsíðu hátíðarinnar.

10 ár eru liðin frá því er heimildarmyndahátíðin Skjaldborg var fyrst haldin á Patreksfirði. Áhugi kvikmyndargerðarfólks á hátíðinni aldrei verið meiri en í ár og fleiri myndir bárust en nokkurn tímann fyrr. Eftir það vandasama verk skipuleggjenda við að velja og hafna stendur eftir stórglæsileg dagskrá sem gestir hátíðarinnar geta notið um komandi helgi.

Það er fjölbreytt flóra mynda sem sýnd verður á hátíðinni í ár, allt frá fullbúnum heimildarmyndum í fullri lengd yfir í verk í vinnslu. Meðal þeirra mynda sem sýndar verða á hátíðinni í ár er Goðsögnin FC Kareoki eftir Herbert Sveinbjörnsson. Myndin fjallar um mýrarboltaliðið FC Kareoki sem sigraði Evrópumeistaramótið í íþróttinni árið 2014 – sjálfum sér og öðrum að óvörum og ákváðu í framhaldinu að fara til Finnlands að freista þess að verða heimsmeistarar. Einnig verður sýnd mynd Marine Ottogalli Sveinn á Múla, Íslendingurinn sem varð bensínlaus. Þar segir af Sveini, sem afgreitt hefur bensín á Innri-Múla á Barðaströnd í 50 ár. Bensínstöðin samtvinnast vel við áhugamálið hans en það er að hitta nýtt fólk á hverjum degi og spjalla. Í myndinni segir af því er Olís ákveður að hætta rekstri á Innri-Múla og hvernig Sveinn heldur áfram með líf sitt í sauðfjárbúskapnum með sonum sínum. Önnur mynd með vestfirska tengingu er myndin Vopnafjörður, sem er eftir tengdadóttur Önundarfjarðar Körnu Sigurðardóttur. Af öðrum áhugaverðum verkum má nefna myndina Blindrahund eftir Kristján Lomfjörð, sem fjallar um myndlistarmanninn Birgi Andrésson sem lést árið 2007 aðeins 52 ára. Með báða foreldra blinda ólst Birgir upp við afar sérstakar aðstæður á Blindraheimilinu við Hamrahlíð.

Heiðursgestir Skjaldborgar í ár eru myndlistarmennirnir Steina og Woody Vasulka sem eru alþjóðlegir frumkvöðlar á sviði vídeólistar og geta gestir hátíðarinnar geta notið verka þeirra og þekkingar með ýmsum hætti. Sýndar verða nokkrar af myndum þeirra og í Í kjölfar þeirra verður svokallað masterclass þar sem Hrafnhildur Gunnarsdóttir, kvikmyndagerðarkona, mun ræða við hjónin um ævistarf þeirra. Hrafnhildur sýnir einnig heimildarmynd sína The Vasulka Effect sem enn er á vinnslustigi og segir frá verkinu. Þá verða í Húsinu eða House of Creativity, sem er glænýtt listamannarými á Patreksfirði, sýnd nokkur verk eftir Steinu og Woody meðan á hátíðinni stendur.

Það verður ýmislegt annað við að vera á hátíðinni og ber þar hæst rjúkandi heitt lokahóf í Félagsheimili Patreksfjarðar á sunnudagskvöldið þar sem stuðpinnarnir í FM BELFAST trylla lýðinn. Skrúðganga verður úr Skjaldborgarbíó eftir að sjálfur Einarinn, verðlaunagripur hátíðarinnar, hefur verið afhentur fyrir bestu myndina þessu sinni. Allir velkomnir á dansleikinn á meðan húsrúm leyfir.

annska@bb.is

DEILA