Meistari töfranna í Bolungarvík

Töframaðurinn Shin Lim er á leið til Íslands og meðal staða sem hann heimsækir í ferð sinni er Bolungarvík þar sem hann treður upp í félagsheimilinu fimmtudagskvöldið 1.júní. Shin þessi er enginn aukvisi í faginu þar sem hann var krýndur heimsmeistari í töfrum árið 2015. Hann hefur einnig sér til frægðar unnið að hafa platað þá Penn og Teller upp úr skónum með töfrum sínum, en slíkt er ekki á hvers manns færi. Shin Lim hefur á undanförnum árum skipað sér sess sem einn virtasti og besti töframaður heims, hann er þekktur fyrir einstaka færni með spil og ekki síst einstaka nýsköpun á því sviði.

Sýning sem er troðfull af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum, þar sem áhorfendum gefst kostur á að taka virkan þátt í sýningunni. Þá koma fram á sýningunni töframennirnir: Einar Mikael sem hefur notið ómældra vinsælda meðal yngstu kynslóðarinnar, Daníel Örn og John Tómas.

Sýning hefst kl 19:30 og opnar húsið klukkustund fyrr. Að sýningu lokinni verður gestum boðið upp á myndatöku með töframönnunum og verður hægt að kaupa ýmsan töfravarning eins og galdrabækur og töfrahetjubúninga.

Shin Lim hefur verið að undirbúa sig fyrir Íslandsheimsóknina, meðal annars með spilagaldri sem má sjá hér.

annska@bb.is

DEILA