Lífeyrissjóðunum og verkalýðsforystunni sendur tónninn

Að vanda var gengið fylktu liði frá verkalýðshúsinu niður í Edinborgarhús.

Ræðumenn dagsins á Ísafirði sendu verkalýðsforystunni og stjórnum lífeyrissjóða brýningu á baráttufundi í tilefni af 1. maí hátíðarhöldum stéttarfélaganna á Ísafirði. Bergvin Eyþórsson sjómaður og trúnaðarmaður hjá Verk Vest var aðalræðumaður dagsins og gerði yfirskrift dagsins að umræðuefni. Þar hvatti hann stjórnir lífeyrissjóða til að byggja íbúðir á hagstæðum kjörum fyrir sjóðfélaga. Bergvin sat í samninganefnd sjómanna í kjaradeilu þeirra við útgerðarmenn í vetur sem lauk eftir lengsta sjómannaverkfall sögunnar. Í ræðu sinni setti Bergvin kröfur sjómanna í samhengi við hagnaðartölur úgerðarinnar.

„Í desember settumst við niður með útgerðarmönnum og settum fram kröfur sem í heild sinni, fyrir alla útgerðarmenn á landinu, voru metnar á 3.750 milljónir á ári. Útgerðarmenn, sem skiluðu 75 þúsund milljónum í hagnað árið áður, höfnuðu öllum okkar kröfum, sögðu það verða banabita útgerðanna að greiða þetta,“ sagði Bergvin.

 

Kolbrún Sverrisdóttir, verkakona og trúnaðarmaður hjá Verk Vest, sendi verkalýðsforystunni og lífeyrissjóðakerfinu tóninn í pistli dagsins. Sagði Kolbrún forystuna hafa fjarlægst verkafólk ásamt því vera komin í einkavæðingu ASÍ með atvinnurekndum. Þessu yrði að breyta og hún tryði því að nú væri tími verkakólks innan ASÍ kominn. „Lífeyrissjóðir landsins eru fremstir í flokki við að arðræna alþýðu þessa lands. Þar sitja saman verkalýðsrekendur og kollegar þeirra úr röðum atvinnurekenda. Þarna sameinast þeir við að gambla með lífeyri alþýðunnar sem ekkert hefur um þessa stóru sjóði sína að segja. Þeirra er að greiða, þegja og þiggja.

Það myndi gleðja mig mikið ef Verkalýðsfélag Vestfirðinga hefði forgöngu um að þeir sem eiga lífeyrissjóðina, það er launafólk, myndi kjósa og velja stjórnendur þeirra. Ég veit ekki hvað atvinnurekendur myndu segja ef verkalýðurinn mætti kjósa meirihluta stjórnar í fyrirtækjunum þeirra,“ sagði Kolbrún í ræðu sinni á 1. maí hátíðarhöldum á Ísafirði.

DEILA