Kólnar aftur í vikunni

Ef veðurspá gengur eftir gæti snjóað á Vestfjörðum á fimmtudag.

Veðrið hefur sannarlega leikið við Vestfirðinga sem aðra landsmenn síðustu daga þó talsvert þokuloft hafi sett smá strik í reikning blíðunnar. Í dag gerir Veðurstofa Íslands ráð fyrir suðvestan 5-13 m/s og björtu með köflum á Vestfjörðum, en sums staðar verður þokumóða. Vindur gengur í norðaustan 10-15 m/s með lítilsháttar vætu annað kvöld. Hiti verður á bilinu 5 til 12 stig að deginum. Á miðvikudag kólnar í veðri og kveður veðurspá fyrir landið á um norðaustan 13-23 m/s, hvassast verður á Norðvesturlandi og með suðurströndinni. Þá verður rigning eða slydda, en snjókoma til fjalla á norðanverðu landinu. Hiti 0 til 7 stig. Á fimmtudag verður áfram svalt í veðri með austan- og norðaustan 13-23 m/s og rigningu eða slyddu.

annska@bb.is

DEILA