Kjartan Óli og Þorgerður best í vetur

Frá vinstri: Kjartan Óli, Hafsteinn Már, Tihomir, Katla Vigdís og Þorgerður.

Þau Kjartan Óli Kristinsson og Þorgerður Karlsdóttir voru valin bestu leikmenn meistaraflokka blakdeildar Vestra á tímabilinu. Hafsteinn Már Sigurðsson og Katla Vigdís Vernharðsdóttir voru valin efnilegust. Það var Tihomir Paunovski þjálfari sem valdi og tilkynnti niðurstöðurnar á uppskerufögnuði sem blakarar héldu á strandblakvellinum í Tungudal í síðustu viku.

Uppskerufagnaðurinn markaði lok inniblaktímabilsins, en blakarar verða duglegir að nýta strandblakvellina í Tungudal og á Þingeyri í sumar. Farið var í leiki og strandblak í sandinum, grillaðar pylsur og yngriflokkaleikmenn fengu viðurkenningarskjöl.

Tihomir þjálfari er nú farinn í sumarfrí til Makedóníu, en hann stefnir á að koma aftur næsta vetur og halda áfram að þjálfa hjá Vestra.

DEILA