Kerecis fær viðurkenningu Vaxtarsprotans

Ísfirska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis er eitt fjögurra fyrirtækja sem fá viðurkenningu Vaxtarsprotans í ár. Viðurkenningin er fyrir að sýna mestan hlutfallslegan vöxt á síðasta ári. Tilgangur Vaxtarsprotans er að vekja athygli á góðum árangri  sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingastarfi þessara fyrirtækja. Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknamiðstöðvar Íslands.

Viðurkenningunum er skipt í tvo flokka, annars vegar fyrirtæki sem velta á milli 10-100 milljónum og hins vegar fyrirtæki sem velta á milli 100-1000 milljónum. Kerecis fær viðurkenningu í fyrrnefnda flokknum ásamt fyrirtækinu TeqHire. Í flokki stærri fyrirtækja fá Valka og Kvikna viðurkenningu Vaxtarsprotans.

Viðurkenningar Vaxtarsprotans verða afhentar á morgun í Grasagarðinum í Reykjavík. Tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri  sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingastarfi þessara fyrirtækja.

Auk þess verður veitt sérstök viðurkenning til sprotafyrirtækis sem náð hefur þeim áfanga á síðasta ári að velta meira en einum milljarði króna og tekur þar með sæti í úrvalsdeild íslenskra hátæknifyrirtækja.

Það fyrirtæki sem sýnir mestan hlutfallslegan vöxt milli áranna 2015 og 2016 auk þess að uppfylla önnur viðmið dómnefndar hlýtur nafnbótina Vaxtarsproti ársins. Fyrirtækið fær til varðveislu farandgrip og verðlaunaskjöld til eignar.

DEILA