Kennarar víða að heimsækja Ísafjörð

Hópurinn saman kominn á Ísafirði

Kennarar við Grunnskólann á Ísafirði hafa undanfarin tvö ár verið þátttakendur í verkefni á vegum Erasmus+, menntaáætlunar Evrópusambandsins. Í verkefninu sem snýr að því að skoða frammistöðu minnihlutahópa í þátttökuskólum, taka auk Íslands þátt kennarar frá Þýskalandi, Portúgal, Kýpur, Króatíu og Lettlandi. Hafa þau verið að skoða hvort munur sé á námsframvindu hjá minnihlutahópum og ef svo er, hvað er hægt að gera til að leiðrétta það.

Þessa vikuna var haldinn síðasti fundur verkefnisins hér á Ísafirði. En fram til þessa hafa farið tveir fulltrúar frá Ísafirði á fund í hverju þátttökulandi nema til Riga, en þangað fóru þrír kennarar ásamt Olgu Veturliðadóttur skólastjóra. Auk fjögurra kennara við Grunnskólann á Ísafirði taka tólf kennarar frá hinum löndunum þátt í verkefninu og eru þeir nú komnir hingað í heimsókn. Samhliða því að setja saman lokaskýrsluna fyrir verkefnið hefur hópurinn gert víðreist um svæðið og meðal annars heimsótt Stjórnsýsluhúsið þar sem þar sem Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri, Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari og Margrét Halldórsdóttir sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs tóku á móti hópnum. Þau fóru einnig í heimsókn til Bolungarvíkur þar sem Ósvör var meðal annars skoðuð og fengu leiðsögn um Skutulsfjarðareyri. Erlendu gestirnir halda svo til síns heima í dag eftir viðburðarríka viku á Ísafirði.

Fram til þessa hafa verið haldnir fundir í hverju landi þar sem kennarar hafa kynnt verkefnin sem þeir hafa unnið ásamt nemendum sínum á milli funda. Bryndís Bjarnason er ein þeirra sem tekið hefur þátt í verkefninu og segir hún verkefnin hafa verið fjölbreytt og kennararnir lært mikið sem nýtist þeim vel í kennslu sinni hér heima. annska@bb.is

Erasmus-Iso-17

Hópurinn saman kominn á Ísafirði

DEILA