„Fangaðu stuðið á AFÉS“ var yfirskrift ljósmyndakeppni sem einn af styrktaraðilum Aldrei fór ég suður, Orkusalan, stóð fyrir. Gestir hátíðarinnar gátu fengið með sér einnota myndavélar þar sem þeir smelltu myndum af því sem fyrir augu bar á hátíðinni og sá sem fangaði mestu stuðmyndina fékk svo að launum 66°norður úlpu. Filmurnar voru sendar í framköllun eftir páska og þá upphófst biðin eftir myndunum, gjörningur sem fyrir ekki svo mörgum árum þekktist vel, en er orðinn æ sjaldgæfari með tilkomu stafrænna myndavéla og snjalltækja. 

Nú liggja úrslitin fyrir og var það Svava Lóa Stefánsdóttir sem hreppti hnossið með sigurmynd af hressu þríeyki í rokkskemmunni. Á Fésbókarsíðu Orkusölunnar gefur nú að líta samansafn bestu myndanna og er stuðið í fyrirrúmi.

annska@bb.is

 

DEILA