Gengið saman í rokinu

Haldið af stað. Mynd: Hrafn Snorrason

Þó lognið eigi á Ísafirði lögheimili þá koma tímar þar sem það bregður sér af bæ, líkt og í síðustu viku. Það stoppaði þó ekki rúmlega tuttugu manns á öllum aldri sem vasklega skelltu sér í göngu undir formerkjum „Göngum saman“ sem farin var á laugardag og er óhætt að segja að göngugarparnir hafi verið í sólskinsskapi þrátt fyrir hvassvirði. Misjafnt var hve langt fólk gekk en allar vegalengdir voru nýttar 1,5 km, 3 km og 7 km og var það starfsfólk Íslandsbanka sem bauð fram aðstoð sína við umsýslu göngunnar í ár. Göngum saman verkefnið fagnaði 10 ára afmæli í ár og var gengið á vegum þeirra á 14 stöðum á laugardaginn, auk þess sem gengið var á Tenerife og í Lucca á Ítalíu og tóku í heildina þátt hátt á annað þúsund manns.

Þó lognið væri að flýta sér voru göngugarparnir hinir hressustu. Mynd: Hrafn Snorrason.

Styrktarfélagið Göngum saman hefur það að markmiði að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini en þær eru undirstaða þess að lækning finnist í framtíðinni. Félagið leggur áherslu á mikilvægi hreyfingar bæði til heilsueflingar og til að afla fjár í styrktarsjóðinn. Stærsta fjáröflun ársins er í kringum árlega göngu félagsins og frá stofnun félagsins hefur félagið úthlutað rúmlega 70 milljónum í rannsóknastyrki til íslenskra vísindamanna. Fyrsti styrkurinn var veittur árið 2007 en síðan hefur Göngum saman veitt styrki á hverju ári, síðast 10 milljónum króna í október 2016.

DEILA