Gengið saman á Ísafirði og Patreksfirði

Frá liðinni göngu á Ísafirði er hópurinn safnaðist saman við Safnahúsið.

Mæðradagsganga Göngum saman verður haldin um land allt sunnudaginn 14. maí klukkan 11. Gengið verður á 13 stöðum um allt land, þar á meðal á Ísafirði og Patreksfirði, auk þess sem nú verður í fyrsta skipti gengið á Tenerife. Styrktarfélagið Göngum saman leggur áherslu á mikilvægi hreyfingar til heilsueflingar, en félagið hefur um árabil styrkt af miklum mætti grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini hér á landi.

Á Ísafirði verður gengið frá Safnahúsinu við Eyrartún, þar sem verður hægt að velja um þrjár vegalengdir til að fara. Á Patreksfirði verður gengið frá íþróttahúsinu Bröttuhlíð þaðan sem genginn verður hringur um bæinn og göngufólki síðan boðið í sund. Á báðum stöðum verða söfnunarbaukarnir á lofti og varningur til styrktar málefninu seldur á göngustað.

Fatahönnuðurinn Hildur Yeoman hefur hannað hettupeysur, boli og taupoka í tilefni af 10 ára afmæli Göngum saman og verður hægt að kaupa slíkt á göngustöðum um landið. Einnig hefur Hlín Reykdal hannað nisti í tveimur litum, en hún hefur í gegnum árin hannað ýmislegt skart til styrktar félaginu. Hægt er að gerast félagi í styrktarfélaginu Göngum saman hér.

annska@bb.is

DEILA