Gagnrýna aukin útgjöld bæjarins

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í Ísafjarðarbæ segja afkomu bæjarins vera afar ánægjulega og hún gefi sveitarfélaginu tækifæri til að sækja fram. Ársreikningur Ísafjarðarbæjar var samþykktur af lokinni seinni umræðu fyrir helgi. Rekstur samstæðu Ísafjarðarbæjar skilaði 225 milljóna króna afgangi á síðasta ári en fjárhagsætlun gerði ráð fyrir 18 milljóna króna afgangi.

Í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við samþykkt árseikningsins kemur fram að hafa verði í huga að vöxtur tekna hafi verið gífurlegur, fyrst og fremst vegna góðs ástands í þjóðarbúskapnum og mikilla launahækkana sem bæði leiða til hærri útsvarstekna og hærri framlaga úr Jöfnunarsjóði.

Bæjarfulltrúarnir segja í bókuninni að tekjur Ísafjarðarbæjar árið 2016 hafi verið 350 milljónir króna umfram fjárhagsáætlun sem samþykkt var í desember 2015.

Í bókuninni segir einnig:

„Þrátt fyrir það er niðurstaða ársreiknings aðeins um 200 m.kr. betri en ráð var fyrir gert sem sýnir að gjöld fóru verulega fram úr samþykktri áætlun.

Til framtíðar er mikilvægt að nýta þessar auknu tekjur til að greiða niður skuldir, sýna aðhald, lækka álögur á bæjarbúa og fjárfesta til framtíðar í skynsamlegum verkefnum sem gerir okkur kleift að bregðast við ef illa árar.“

DEILA