Fylgst með glímu Sigga við vistsporið

Skjáskot úr Manninum sem minnkaði vistsporið

Á morgun verður boðið til ókeypis kvikmyndasýningar í Ísafjarðarbíói er þar verður sýnd heimildarmyndin Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt. Myndin fjallar um Sigga og baráttu hans við að lifa sjálfbæru lífi í ósjálfbæru samfélagi. Siggi eða Sigurður Eyberg Jóhannesson var við nám í umhverfis- og auðlindafræðum þar sem hann meðan annars reiknaði út eigin vistspor – og komst hann að því sér til mikillar skelfingar að það var fimmfalt yfir sjálfbærnimörkum. En vistspor hefur verið ein mest notaða mælistika á sjálfbæran lífsstíl síðustu ára. Siggi ákvað að taka sig taki og sjá hvort hann gæti náð vistspori sínu inn fyrir mörk sjálfbærninnar sem er hægara sagt en gert hér á landi. Myndin fylgir Sigga eftir í þeirri viðleitni og fáum við að sjá hvaða verkefni hann glímir við og hvort honum takist ætlunarverkið.

Þrátt fyrir talsvert tæra ímynd Íslands hefur því verið fleygt að Íslendingar séu meðal verri umhverfissóða sem finnast. Þá er spurningarnar: Hvað erum við að gera verra en aðrir þegar kemur að umhverfismálum og hvað skiptir mestu máli í þeim efnum? Telur mikið að flokka rusl eða hætta að nota umbúðir? Eða telur meira að hætta að nota bíl eða borða minna kjöt?

Það er framleiðslufyrirtækið BROS sem stendur að baki myndinni og er það í eigu Sigurðar og bróður hans Magnúsar B. Jóhannessonar. Sýningin í Ísafjarðarbíói hefst klukkan 16 og verða þeir bræður viðstaddir og verða pallborðsumræður að sýningu lokinni þar sem verður leitast við að svara spurningum sem brenna á fólki um eigið vistspor og annarra. Það er Suðupottur sjálfbærra hugmynda, í samstarfi við Ísafjarðarbíó, Gámaþjónustu Vestfjarða, Kubb og Ísafjarðarbæ, sem stendur fyrir sýningunni og eru allir ungir sem aldnir velkomnir.

Hér má sjá brot úr myndinni.

annska@bb.is

DEILA