Fullt hús á forritunarnámskeiði

Krakkarnir voru greinilega afar áhugasamir.

Um helgina voru haldin forritunarnámskeið fyrir börn í Fab Lab smiðjunni á Ísafirði. Það voru hugsjónasamtökin Kóder sem stóðu fyrir námskeiðunum þar sem annars vegar var boðið upp á svokallað Scratch námskeið fyrir krakka á aldrinum 6-10 ára og Python námskeið fyrir krakka á aldrinum 10-14 ára. Vel var mætt á námskeiðin. Þátttakendur voru 40 talsins og komust færri að en vildu. Það var mikill áhugi fyrir forrituninni hjá krökkunum, sem stóðu sig með prýði að sögn Kóderfólks, en kennari á námskeiðinu var nýkosinn formaður Kóder, Eyþór Máni Einarsson.

Í skoðun er að bjóða aftur upp á forritunarnámskeið í sumar og einnig að vera með kennaranámskeið.

Kóder vinna að því að gera forritun aðgengilega fyrir börn og unglinga úr öllum þjóðfélagsstigum. Þau vilja opna nýjar dyr innan tölvuheimsins með því að kynna forritun fyrir börnum og unglingum. Þar sem með henni geta þau stað þess að vera einungis neytendur á afþreyingarefni og tölvuleikjum eflt eigin rökvísi, sköpunargáfu og læra vandamálagreiningu frá unga aldri.

annska@bb.is

DEILA