Flateyringar sýndu og sönnuðu um helgina að þar er ekki bara hægt að syngja um hafið og fjöllin og skemmta sér á Vagninum. Gríðargóð ráðstefna var haldin á föstudag og laugardag þar sem tilvera lítilla sjávarþorpa, menning þeirra, kostir og gallar voru ræddir í þaula. Jóhanna G. Kristjánsdóttir menntunarfræðingur reið á vaðið með erindi sem hún kallaði Byggðin á mölinni og í kjölfarið ræddi Þóroddur Bjarnason, félagsfræðingur og prófessor við HA, um áskoranir og framtíð sjávarbyggða. Síðasta erindi dagsins flutti heimamaðurinn Kristjáns Torfi Einarsson, sjómaður og útgerðarmaður. Kristján Torfi fór yfir sögu staðarins og hve mikilvægt það er að heimamenn hafi aðgang að auðlindum svæðisins, bæði til lands og sjávar.
Líflegar umræður voru á eftir hverju erindi og þessum fyrsta degi lauk svo með móttöku í samkomuhúsi bæjarins.
Árla morguns á laugardag fylltist salurinn aftur og Guðmundur Hálfdánarson, sagnfræðingur og prófessor við HÍ, fór í stórum dráttum yfir söguna í erindi sem hann kallaði Glæst fortíð – óviss framtíð. Sæbjörg Freyja Gísladóttir þjóðfræðingur velti fyrir sér af hverju fólk búi á Flateyri, en hún hefur rannsakað daglegt líf ólíkra hópa á Flateyri. Lokaerindið flutti Kristinn Hermannsson, lektor í hagfræði við Háskólann í Glasgow. Í erindinu fór Kristinn yfir staðbundin spor efnahagslífsins og áhrif þess á nærsamfélög.
Eins og fyrri daginn voru ráðstefnugestir áhugasamir um erindin og fjölmargar spurningar vöknuðu.
Að loknum pallborðsumræðum þar sem fyrirlesarar sátu fyrir svörum tíndust ráðstefnugestir til síns heima, með nýjar hugmyndir eða staðfestingu á réttmæti sinna hugmynda, allir ríkari eftir fantagóða ráðstefnu.
Það var tengdadóttir Önundarfjarðar, Friðbjörg Matthíasdóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar, sem stýrði málþinginu af mikill röggsemi.
Að málþinginu stóðu Perlur fjarðarins ehf. Flateyri, félagið Hús og fólk Flateyri og ýmsir heimamenn á Flateyri í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða með styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.
Markmið málþingsins var vekja athygli á vestfirsku samfélagi og málefnum dreifðra byggða á Íslandi. Heimamenn, fræðimenn og gestir munu skiptast á skoðunum í von um að umræða er tæki mið af reynsluheimi íbúa dreifðra byggða, þekkingu og sýn fræðimanna muni efla skilning á stöðu mála, viðfangsefnum og hugsanlegum úrræðum.
bryndis@bb.is