„Fráleitt er allt tal um að hægja á leyfisveitingum“

Sjókvíar í Arnarfirði.

 

„Fráleitt er allt tal um að hægja á leyfisveitingum með pólitískum eða stjórnsýslulegum tilskipunum, í blóra við gildandi lög. Enda er vandséð hvernig unnt er að hægja á þegar fyrir liggur að útgáfa leyfa undanfarin ár hafa verið nær engin“. Þannig er komist að orði í ályktun aukaaðalfundar Landssambands fiskeldisstöðva.

Á ályktunum fundarins er ekki minnst á nýlegt lúsasmit í Arnarfirði sem krefst lyfjameðhöndlunar eins og fjölmiðlar hafa fjallað um ítarlega.

Í ályktun fundarins segir að fiskeldi er orðin öflug atvinnugrein á Íslandi sem miklar vonir eru bundnar við. „Um fiskeldið gilda skýr lög og reglur en þrátt fyrir verulegar fjárfestingar í greininni hefur uppbygging hennar verið hæg. Einungis er unnt að stunda fiskeldi í sjó við lítinn hluta strandlengjunnar. Óhætt er því að segja að beitt er ítrustu varúðarnálgun við leyfisveitingar. Frá því að ný lög um fiskeldi tóku gildi í ársbyrjun 2015 hefur einvörðungu verið veitt eitt leyfi til fiskeldis í sjó og var þar um að ræða stækkun á áður út gefnu leyfi.“

DEILA