Forvarnafræðsla Magga Stef heimsækir Ísafjörð

Magnús Stefánsson.

Magnús Stefánsson, hinn þaulreyndi fyrirlesari á sviði forvarnamála, er væntanlegur til Ísafjarðar á morgun, miðvikudaginn 3.maí, þar sem hann verður með fyrirlestur á vegum Vá Vest hópsins fyrir foreldra barna og unglinga undir yfirskriftinni „Hvenær er besti tími dagsins til að ala upp barn?“ Fyrirlesturinn verður á fjórðu hæð Stjórnsýsluhússins og hefst hann klukkan 20.

Á fyrirlestrinum fjallar Magnús um helstu einkenni fíkniefnaneyslu og þau efni sem eru í umferð og áhrif þeirra og þá hvernig gott er að bregðast við ef grunur um neyslu kemur upp. Einnig fjallar hann um uppeldistengd málefni líkt og gildi, hefðir og venjur og hvernig styrkja má tilfinningagreind og sjálfstraust barna. Í tilkynningu segir að besta forvörn sem völ er á séu uppfræddir og meðvitaðir foreldrar og unglingar taki mark á því sem foreldrar þeirra segja og því mikilvægt að foreldrar séu virkir í umræðunni og taki fullan þátt í að fræða unglingana sína.

Magnús Stefánsson er fjölskylduráðgjafi og tónlistamaður og hefur hann starfað sem fyrirlesari hjá Maritafræðslunni frá árinu 2001. Á þeim tíma hefur hann farið í um eitt þúsund skólaheimsóknir á 16 ára og haldið í kringum 3.400 fræðslufundi. Hann hefur getið sér gott orð í því að ná til ungmenna við að útskýra mögulega skaðsemi vímugjafaneyslu.

Hér má sjá umsagnir foreldra um fræðslu Magnúsar og kynna má sér störf hans á heimasíðunni www.maggistef.is

DEILA