Brjóstabollur í bakaríum landsins

Brjóstabollan í ár er girnileg.

Félagsmenn í Landssambandi bakarameistara efna til sölu á brjóstabollum í bakaríum um allt land dagana 11.-14. maí og eru dagsetningarnar valdar með mæðradaginn til hliðsjónar en hann er hér á landi annan sunnudag maímánaðar. Salan á bollunum er til stuðnings styrktarfélaginu Göngum saman sem styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini en ganga á þeirra vegum verður einnig um land allt um helgina.

Sala á brjóstabollum er orðinn árviss viðburður í bakaríum um mæðradagshelgina og í hvert sinn er a finna nýja tegund sem gleður bragðlaukana og á sama tíma styður gott málefni. Á þeim sex árum sem bakarameistarar hafa lagt söfnuninni lið hafa safnast 8 milljónir í þessar mikilvægu rannsóknir. Fyrirtæki og stofnanir eru hvött til að bjóða starfsmönnum upp á bollur með kaffinu fimmtudag eða föstudag og síðan er tilvalið að taka þátt í mæðradagsgöngum sem verða um allt land og gæða sér á brjóstabollum að göngu lokinni.

Hægt verður að fá brjóstabollurnar í bakaríum um land allt og á Ísafirði verða þær til sölu í Bakaranum.

annska@bb.is

DEILA