Bolfiskvinnsla að nálgast þolmörkin

Styrking krónunnar hefur haft veruleg áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Raungengi krónunnar er nú svipað og það var fyrir hrun. Ætla má að tekjur vegna bolfiskafurða verði um 25 til 30 milljörðum króna lægri árið 2017 en þær voru árið 2015. Þetta kemur fram í viðtali í nýjustu Fiskifréttum við Hallveigu Ólafsdóttur, hagfræðing Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Á sama tíma og tekjur rýrna hækkar innlendur kostnaður. Þannig hefur launavísitalan hækkað um 27% frá upphafi árs 2014 en gengi krónunnar hefur styrkst um 26% á sama tímabili. Framlegð í botnfiskveiðum og -vinnslu á árinu 2015 var góð, eða um 27%, en gera má ráð fyrir að framlegðin fari niður í 16% í ár. Í Fiskifréttum er haft eftir Pétri H. Pálssyni, framkvæmdastjóra Vísis hf., að rekstur bolfiskvinnslunnar væri að nálgast þolmörkin og framlegð væri hægt og bítandi að hverfa. Hann segir einu raunhæfu leiðina til að bregðast við stöðunni vera stærri einingar með sameingu fyrirtækja. Einnig væri hægt að fjárfesta í betri tækni en það yrði ekki gert nema með auknu hlutafé. Hann bætti því við að sameining fæli óhjákvæmilega í sér fækkun skipa, fiskvinnslustöðva og ófaglærðs fólks.

 

 

DEILA