Atvinnuleysið 3,2%

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands var atvinnuleysi í aprílmánuði 3,2 prósent. Að jafnaði voru 199.300 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í apríl, sem jafngildir 83,2% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 192.900 starfandi og 6.400 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,5% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,2%. Samanburður mælinga fyrir apríl 2016 og 2017 sýnir að þrátt fyrir að fjöldi fólks á vinnumarkaði hafi aukist um 3.500 þá lækkaði atvinnuþátttaka um 0,6 prósentustig. Fjöldi starfandi jókst um 6.600 manns og hlutfall starfandi af mannfjölda um 0,8 prósentustig. Atvinnulausum fækkaði um 3.100 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu lækkaði um 1,6 prósentustig milli ára.

Á vormánuðum eykst venjulega eftirspurn ungs fólks eftir atvinnu og er það vel merkjanlegt í þessari mælingu. Af öllum atvinnulausum í apríl voru 52% á aldrinum 16-24 ára og var atvinnuleysi á meðal þeirra 9,7%.

DEILA