Aldraðir, eru ekki til peningar?

Guðjón Brjánsson

Nokkrum dögum fyrir alþingiskosningarnar 2013 ritaði formaður Sjálfstæðisflokksins eldri borgurum bréf þar sem hann tíundaði loforð um átak í þeirra þágu. Það átti snarlega að afnema kjaraskerðingu, lækka fjármagnstekjuskatt og afnema tekjutengingar ellilífeyris. Sjálfstæðisflokkurinn hjarir enn við völd og allt hefur þetta verið sniðgengið svo ekki sé dýpra tekið í árinni, enn bíða aldraðir og nú er komið árið 2017.

Við jafnaðarmenn áréttum að hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 25.000 krónum á mánuði í 100.000 krónur í áföngum á árunum 2018-2022 er breyting sem eingöngu gagnast þeim ellilífeyrisþegum sem stunda atvinnu og hafa atvinnutekjur umfram 25.000 krónur á mánuði. Það eru einungis um 14% ellilífeyrisþega sem hafa yfirleitt atvinnutekjur og af þeim aðeins þriðjungur sem hefur tekjur yfir þessum mörkum. Aðgerðin mun því ekki gagnast tekjulægstu lífeyrisþegunum. Hér þurfum við að gera betur og samþykkja á Alþingi hið fyrsta gjörning sem tryggir sæmandi afkomu, bæði aldraðra og öryrkja. Að því mun þingflokkur okkar vinna.

Sjálfstæðisflokkurinn segir að ekki sé meira svigrúm í hagkerfinu, með öðrum orðum að ekki séu til peningar í málaflokkinn. Þetta er rangt. Peningarnir eru til en þeir eru ekki í okkar höndum sameiginlega, heldur í vösum einkafyrirtækja sem fá t.d. óáreitt að nýta sér auðlindir þjóðarinnar án þess að þurfa að gangast undir þær samfélagslegar skuldbindingar að stuðla að velferð og jöfnuði með eðlilegri greiðslu fyrir afnotin.

Það bíða verkefni í þágu aldraðra. Brýn eru þau sem lúta að almennum kjörum en ekki síður lausn á vanda þeirra sem bíða þjónustu, aðstoðar og stuðnings heima fyrir, hafa væntingar og loforð um ásættanlegt búsetuúrræði í heimabyggð eða þeirra sem bundnir á sjúkrahúsi og eiga ekki annan kost.

Í fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar lofa stjórnvöld að byggð verði tæplega 300 hjúkrunarrými til að leysa vandann, aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Þá liggja jafnframt fyrir loforð um að endurbæta eldra húsnæði á stofnunum sem víða eru starfrækt á undanþágum frá eftirlitsaðilum, einnig að bæta dagþjálfun og fleiru er lofað. Allt er þetta jákvætt og í sjálfsögðu samræmi við nútímaleg viðhorf. Gallinn er bara sá að ríkisstjórnin hefur ekki dug til að afla þeirra tekna sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að standa við loforðin, enn vantar líklega um tug milljarða til þess. Stefna og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er orsökin.

Það er því miður rík ástæða til að efast um efndir. Það væri eftir öðru að Sjálfstæðisflokkurinn færi samviskulaus í þriðju kosningarnar í röð með sömu innihaldslausu loforðin og vanefndirnar í farteskinu. Munu aldraðir sætta sig við að allt sé þá þrennt er?

Guðjón S. Brjánsson

alþingismaður

DEILA