Viðurkenningar fyrir framúrskarandi flutning

Mariann við flygilinn í Hörpu.

Fulltrúar Tónlistarskóla Ísafjarðar og Tónlistarskóla Bolungarvíkur stóðu sig með miklum sóma á lokahátíð Nótunnar í Eldborgarsal Hörpu í gær. Flutningur Mariann Rähni úr Tónlistarskóla Bolungarvíkur á vals í e-moll ef Frédéric Chopin var eitt tíu atriða sem fengu sérstaka viðurkenningu og verðlaunagrip fyrir framúrskarandi flutning á Nótunni. Dómnefnd Nótunnar verðlaunaði einnig söng Arons Ottós Jóhannssonar á Ol‘ Man River eftir Roger og Hammerstein en meðleikari hans var Pétur Ernir Svavarsson. Þeir hafa báðir numið við Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Anya Hrund Shaddock vann aðalverðlaunin og telst handhafi Nótunnar 2017. Hún flutti píanóverkið Clair de lune eftir Claude Debussy. Anya er nemandi í Tónlistarskóla Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar.

Nótan er uppskeruhátið tónlistarskóla landsins og var nú haldin í sjötta sinn.

DEILA