Hjartaheill og SÍBS í samstarfi við sveitarfélög og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða bjóða Vestfirðingum ókeypis heilsufarsmælingu 9.-12. maí næstkomandi. Mælingarnar ná til helstu áhættuþátta lífsstílssjúkdóma þar sem mældur er blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun og styrkur auk þess sem boðið verður upp á öndunarmælingu fyrir þá sem mælast lágir í súrefnismettun. Þátttakendum gefst kostur á að svara lýðheilsukönnun og verður fræðsla um lífsstílstengda sjúkdóma í boði, hjúkrunarfræðingar frá heilsugæslunni verða á staðnum og veita ráðgjöf og eftirfylgd.
Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS heldur fræðsluerindi um lífsstílstengda sjúkdóma og stóru myndina í heilbrigðismálum á Ísafirði fimmtudaginn 11. maí kl. 12-13. Fundurinn er í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og verður hægt að taka þátt í gegnum fjarfundabúnað í fjarfundaverum á Vestfjörðum.
Um erindi Guðmundar segir í fréttatilkynningu: Sjúkdómsbyrði Íslendinga má jafna við að ár hvert glatist af hennar völdum fimmtungur landsframleiðslunnar, að ótöldum þeim persónulega harmleik sem þar liggur að baki. Í fyrirlestrinum er notast við gögn úr skýrsluröð Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) „Global Burden of Disease“, þar sem teknar eru saman upplýsingar um ótímabæran dauða (YLL), æviár varið við sjúkdóm og örorku (YLD) og samþætta kvarðann Disability Adjusted Life Years (DALY). DALY-kvarðann, sem nefnist „glötuð góð æviár“ á íslensku, mælir WHO með að stjórnvöld styðjist við varðandi ákvarðanatöku í heilbrigðismálum. Í fyrirlestrinum eru þessi gögn skoðuð á grafískan og gagnvirkan hátt sem gefur afar góða heildarsýn á sjúkdómsbyrðina og ríkuleg tækifæri til umræðu.
Mælingarnar verða sem hér segir:
Búðardalur. 9. maí frá kl. 11-13
Reykhólar: 9. maí frá kl. 12-14
Patreksfjörður: 9. maí frá kl. 18-20
Táknafjörður: 10. maí frá kl. 10-12
Bíldudalur: 10. maí frá kl. 10-12
Þingeyri: 10. maí frá kl. 16-18
Flateyri: 10. maí frá kl. 17-19
Ísafjörður: 11. maí frá kl. 10-14
Suðureyri: 11. maí frá kl. 15-17
Súðavík: 11. maí frá kl. 18-20
Bolungarvík: 11. maí frá kl. 15-17
Drangsnes: 12. maí frá kl. 10-12
Hólmavík: 12. maí frá kl. 14-17