Tveggja vikna námsdvöl á Grænlandi

Hópurinn í vettvangsferð á Grænlandi.

Í Háskólasetri Vestfjarða stendur nú yfir námsönn á vegum School for International Training (SIT) þar sem sautján bandarískir háskólanemar erum við nám bæði á Íslandi og á Grænlandi í nánu samstarfi við Háskólasetrið. Umfjöllunarefnið er loftslagsbreytingar á Norðurslóðum og er hópurinn nú að ljúka tveggja vikna dvöl á Grænlandi en sjálf önnin er samtals 15 vikur.

Námið á vegum SIT er vettvangsnám og áfanginn sem um ræðir nú kallast „Iceland and Greenland: Climate Change  and the Arctic“. Áfanganum var hleypt af stokkunum s.l. haust en þá kom fyrsti hópurinn til landsins. Námið fer að stærstum hluta fram á Íslandi fyrir utan tveggja vikna dvöl á Grænlandi. Hópurinn sem um ræðir nú er því sá annar í röðinni.

Önnin hófst um miðjan febrúar og flaug hópurinn fljótlega til Ísafjarðar þar sem þriggja vikna kennsla fór fram í Háskólasetrinu. Nemendur fengu um leið tækifæri til að kynnast íslenskum fjölskyldum þar sem þeir dvöldu á þeim tíma í heimahúsum. Slík heimagisting hefur verið í boði fyrir nemendur þessa háskóla frá því sumarið 2012 og gefist vel.

Nemendurnir héldu til Grænlands undir lok mars og hófst dvölin í höfuðborginni Nuuk. Pernilla Rein verkefnastjóri hjá Háskólasetrinu er með í för að þessu sinni en hún hefur á undanförnum árum haft umsjón með þjónustu við vettvangsskóla og m.a. skipulagt heimagistingu á meðan á Ísafjarðarhluta námsins stendur.

Sjá nánar á vef Háskólasetursins.

DEILA