Þriðjungur tjónabíla á of slitnum dekkjum

Rúmlega þriðjungur þeirra 100 tjónabíla sem VÍS skoðaði dekk hjá í febrúar og mars  voru á of slitnum dekkjum. Samkvæmt reglugerð frá 2014 skal dekkjamynstur vera að lágmarki 3 mm að dýpt frá 1. nóvember til og með 14. apríl. Yfir sumartímann er aftur á móti samkvæmt reglugerðinni nægjanlegt að mynstursdýptin sé að lágmarki 1,6 mm.

Þetta er í fimmta sinn sem VÍS gerir könnun sem þessa, síðast árið 2015 en þá voru 65% ökutækja á of slitnum dekkjum og ástandið batnað umtalsvert og má vænta að auknar kröfur reglugerðarinnar skili þessum árangri. Þrátt fyrir þróun í rétta átt  er ekki ásættanlegt að enn sé þriðjungur tjónabíla með of litla mynstursdýpt að vetri til.

Þrátt fyrir að enginn mótmæli því að dekk eru mikilvægur öryggisþáttur í umferðinni, er greinilegt að of margir huga ekki að ástandi þeirra. VÍS hvetur alla ökumenn til að yfirfara ástand þeirra dekkja sem þeir ætla að nota í sumar.

DEILA