Þakklætivottur fyrir kærleiksverk Færeyinga

Súðavíkurhreppur verður neyddur til sameiningar verði tillögurnar að veruleika. Mynd: Mats Wibe Lund.

Eins og áður hefur verið greint frá ætla fulltrúar Ísafjarðarbæjarog Súðavíkurhrepps í opinbera heimsókn til Færeyja í maí. Þar á að afhenda færeysku þjóðinni minnisvarða sem þakklætisvott fyrir þjóðarsöfnun Færeyinga eftir snjóflóðin mannskæðu í Súðavík og á Flateyri árið 1995. Söfnunarféð var nýtt til að reisa nýja leikskóla í þorpunum.

Í bókun sveitarstjórnar Súðavíkhrepps segir: „Í dag eru 15 börn í leikskólanum í Súðavík. Hvert og eitt þeirra er birtingarmynd gjafarinnar frá Færeyjum, ómetanlegt. Það er von og vilji Súðavíkurhrepps að listaverkið verði táknmynd fyrir einlægan þakkarhug íbúa Súðavíkurhrepps til Færeyinga, það vinarþel sem Færeyingar eiga í íbúum sveitarfélagsins og það atfylgi, þann kraft og samverknað sem þeir í eiga í einu sveitarfélagi á Vestfjörðum.“

Kostnaður Súðavíkhrepps vegna verkefnisins er um tvær milljónir króna. „Ljóst er að kostnaður sveitarfélagsins vegur lítið á móti kostnaði og kærleik færeysku þjóðarinnar, sem gaf af skorti sínum í erfiðu árferði árið 1995,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

smari@bb.is

 

DEILA