Skoða möguleikann á lotubundnu húsasmíðanámi við MÍ

Menntaskólinn á Ísafirði.

Hjá Menntaskólanum á Ísafirði er verið að skoða þann möguleika að bjóða upp á lotubundið nám í húsasmíði. Námið er hugsað sem svo að nemendur geti stundað það samhliða vinnu. Verklegir áfangar verða þá kenndir í helgarlotum, 5-6 helgar á önn þar sem kennt væri á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Bóklegir almennir áfangar verða í boði í fjarnámi. Námið er hugsað til að gefa fólki færi á að stunda nám samhliða vinnu þar sem það getur reynst fullorðnu fólki erfitt að fara í nám, sérstaklega starfs- og verknám, sem kennt er á vinnutíma og segir Heiðrún Tryggvadóttir, áfanga- og gæðastjóri við skólann, þetta vonandi bara fyrsta starfs- og verknámsbrautin sem verður kennd á þennan hátt. Hún segir þau jafnframt hafa fengið góð viðbrögð við þessari hugmynd en gott væri að fá fleiri nemendur. Áhugasamir eru beðnir um að setja sig í samband við Heiðrúnu í síma 450 4400 eða heidrun@misa.is

annska@bb.is

DEILA