Sigraði örugglega og teflir um Íslandsmeistaratitilinn

Guðmundur fékk veglegan bikar í verðlaun. Í öðru sæti varð Dagur Ragnarsson og Jóhann Ingvason í þriðja sæti.

Ísfirski skákmaðurinn Guðmundur Gíslason kom sá og sigraði í áskorendaflokki Íslandsmótsins í skák sem lauk á sunnudag. Sigurinn gefur Guðmundi rétt til að keppa í landsliðsflokki um Íslandsmeistaratitilinn sem verður teflt um á Skákþingi Íslands í maí. Tíu skákmenn keppa um Íslandsmeistaratitilinn. Níu skákir voru tefldar í áskorendaflokknum og hlaut Guðmundur sjö og hálfan vinning, hafði betur í sjö viðureignum, gerði eitt jafntefli og tapaði einni skák. „Ég tapaði síðustu skákinni, en þá var ég búinn að vinna mótið og þá fer maður með allt öðru hugarfari inn í skákina,“ segir Guðmundur.

Guðmundur hefur teflt frá unga aldri en af mismikilli alvöru. „Á árunum upp úr 90 þá tefldi ég mikið, en svo stofna ég fjölskyldu og hef minni tíma og þá var ég ekki eins mikið í skákinni. Fyrir svona fimm árum fór að róast hjá mér og ég fór aftur í skákina á fullu.“

Guðmundur starfar sem verkstjóri hjá Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru í Hnífsdal. Hann segir að hann gæti ekki teflt af jafnmiklum þrótti ef ekki kæmi til skilningur vinnuveitenda. „Þeir koma til móts við mig og ég get hliðrað til verkefnum þegar ég fer suður að keppa. Ég gæti þetta ekki annars.“

Fyrir sigurinn í áskorendaflokki Íslandsmótsins var Guðmundur með 2.314 ELO stig. Hann býst við að hækka um 22 stig við þennan sigur. „Að hækka um meira en 15 stig í einu þykir mjög gott þannig að ég er mjög ánægður með árangurinn.“

Þrátt fyrir að vera keppnismaður í skák sem tekur sína íþrótt alvarlega er skákin fyrst og fremst áhugamál. „Mér finnst þetta einfaldlega mjög gaman, þetta er eitt af áhugamálunum alveg eins og ég hef gaman af því að hreyfa mig og hleyp mikið. Það að vera í góðu formi skilar mér reyndar líka árangri við skákborðið þannig að þetta hangir saman,“ segir Guðmundur.

DEILA