Sætt og salt framleiðir páskasúkkulaði

Páskasúkkulaði Sætt og salt, hér í glugga Skóbúðarinnar, felur í sér sætleika páskanna og kikk rokkhátíðarinnar.

Einn merkari sprota sem fæðst hafa nýverið á norðanverðum Vestfjörðum er súkkulaðiframleiðslan Sætt og salt í Súðavík, sem framleiðir af miklum myndugleika og natni hágæða handunnið súkkulaði, sem verður vinsælla með hverjum mánuðinum sem líður. Súkkulaðið sem kemur alla jafna í þremur bragðtegundum er nú að finna í hinum ýmsu sælkeraverslunum um landið, sem og verslunum sem selja ferðamönnum varning, en síðustu ár hafa heitustu minjagripirnir oftar en ekki verið matarkyns, svokallaðir matarminjagripir, sem þeir hafa með sér aftur til síns heima eftir að hafa heimsótt nýjar slóðir.

Sætt og salt hefur síðasta ár boðið upp á árstíðatengdar vörur, síðasta haust sendi framleiðslan frá sér hvítt súkkulaði með ferskum aðalbláberjum og svo kom jólasúkkulaði sem sló allrækilega í gegn. Nú er páskasúkkulaði komið á sölustaði, sem konan á bak Sætt og salt, Elsa Guðbjörg Borgarsdóttir, hefur nostrað við og náð fram í gegnum bragðlaukana sætleika páskanna og kikkið af rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður. Líkt og áður þegar boðið hefur verið upp á árstíðartengda vöru er súkkulaðið hvítt og er það með ristaðri og kryddaðri fræ- og hnetublöndu, kókosflögum, gullrúsínum og kryddblöndu. Sölustaðir á Ísafirði eru Skóbúðin-Sögusetur og Þristur Ormsson, í Bolungarvík má fá páskasúkkulaðið í O-Design og er kjörið fyrir súkkulaðiaðdáendur að næla sér í plötu sem hinir fullorðnu mættu njóta á hinni miklu súkkulaðitíð páskunum, á meðan að yngri belgir sig út af páskaeggjum.

annska@bb.is

DEILA