Óratorrek: Uppgjör við allt internetið

Eiríkur Örn Norðdahl. Mynd: Ágúst Atlason.

Ísfirski rithöfundurinn og ljóðskáldið Eiríkur Örn Norðdahl sendi í gær frá sér ljóðabókina Óratorrek, ljóð um samfélagsleg málefni. Í bókinni tekur Eiríkur meðal annars til umfjöllunar: atorku og afköst, sýnileika, aðgát, kebab, skýrar kröfur byltingarinnar, ástina, fyrirgefninguna og hryðjuverk, svo einhver dæmi séu tekin, en bókin skartar tuttugu og þremur orðmörgum og innihaldsríkum ljóðum. Bæjarins besta náði í skottið á Eiríki Erni sem nú er við kynningar á bókinni í höfuðborginni. Þrátt fyrir stuttan tíma á markaðinum hafa viðbrögðin við bókinni ekki látið á standa: „Viðtökurnar hafa verið frábærar – eiginlega get ég ekki sagt annað. Það kemur mér á óvart hversu margir hafa lesið hana nú þegar – því þótt þetta sé ljóðabók er í henni mikill texti.“ Svarar Eiríkur aðspurður um viðtökurnar.

Eiríkur hefur verið afkastamikill höfundur og þýðandi undanfarin ár og hefur hann unnið að bókinni síðastliðin fjögur ár. Hann segist ekki alveg muna hvað fyrsta ljóðið var, en sennilega hafi það birst sem stöðuuppfærsla á Facebook: „Ég fann einhvern talanda – einhverja rödd – sem var bæði kunnugleg og ókunnugleg. Leið eiginlega einsog ég væri að herma eftir tungumálinu, herma eftir sjálfum mér og öllum í kringum mig.“ Hann segist þó ekki viss um hvað hann vilji segja með bókinni, eftir að hafa fengið þá margtuggnu skáldaspurningu, því viðtekna venjan er að sjálfssögðu að skáld færi okkur sýn og skilning, sem kannski er ekki alltaf svo skiljanlegur.

Eiríkur segir þó að í bókinni sé sennilega að finna nokkurn ótta, en líka kærleik og von, í passlegum skömmtum: „Hún er einhvers konar uppgjör við allt internetið sem maður hefur lesið – allan þennan skringilega, kaotíska texta sem maður hefur innbyrt og gert að sjálfum sér (maður er það sem maður les). Eiginlega held ég samt að ég skrifi bækur vegna þess að ég veit ekki hvernig öðruvísi ég ætti að segja hlutina sem í þeim standa.“

Titillinn er grípandi og töff – Óratorrek, en hver skyldi merking þess vera: „Torrek er gamalt orð, þekkt úr sonatorreki Egils Skallagrímssonar og merkir missi sem ekki verður auðveldlega bættur. Órar eru svo hugarórarnir – orðin í hausnum á manni og órator, sem liggur þarna í miðjunni og rekur eða rekst eitthvað, er ræðumaðurinn.“ Svarar skáldið og nokkuð ljóst er að titillinn er vandlega úthugsaður. Bókin sjálf er líka í fasta efninu falleg á að líta og umbrotið svo mátulega passlegt í hendi.

Óratorreksfáni blaktir á Skipagöturóló og Eiríksbörn njóta blíðunnar hress í bragði.

Þeir sem hafa séð Eirík Örn flytja ljóðin sín vita að þar er enginn aukvisi í ljóðaflutningi á ferð. Hann glæðir ljóðin slíku lífi að orðin nánast fá útlimi og form og hvað sem þau kunna að þurfa til að mæta beint inn í eyru og vitund áhorfenda. En skyldi hann æfa framkomu og upplestur sérstaklega:

„Ég æfði mig mikið við upplestra í gamla daga, nú er betra ef ég renni a.m.k. einu sinni í gegnum ljóð sem ég hef ekki lesið áður. En annars æfi ég lítið. Ég kem náttúrulega mikið fram, er mikið boðið á ljóðahátíðir i útlöndum og þessi ljóð hafa verið lesin þar síðustu fjögur árin. Og eru þar af leiðandi þegar til í þýðingum á 8-9 tungumálum. En ég reyni bara að gera með upplesturinn einsog með textann – að ég vandi mig, kasti ekki til hendinni, og gefist ekki upp fyrir því að þetta sé erfitt, og ákveði bara að það sé í lagi að lesa illa upp, því þá er betra að sleppa því bara.

Eiríkur Örn sem er búsettur á Ísafirði með fjölskyldu sinni er nú á faraldsfæti. Hann er nú á fullu við að kynna Óratorrek í Reykjavík og í næstu viku heldur hann til Frakklands þar sem hann mun kynna bók sína Heimsku á bókmenntahátíð í Arras, en bókin hefur verið að gera það gott þar í landi frá því er hún kom þar út á síðasta ári.

Það er Mál og menning sem gefur Óratorrek út og er hún fáanleg í bókaverslunum og á Ísafirði má einnig kaupa hana í bókabúð Gallerís Úthverfu.

annska@bb.is

DEILA