Ögurstund Í Reykhólahreppi.

Góðir lesendur bb.is. Nú hefur Skipulagsstofnun skilað af sér áliti vegna vegagerðar frá Bjarkarlundi til Skálaness. Sveitarstjórn Reykhólahrepps stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun hvort hún á að gefa framkvæmdaleyfi fyrir leið Þ-H eða horfa til framtíðar og velja leið D2.  Það má telja stórundarleg vinnubrögð vegagerðar ríkisins að gefa út sitt álit einungis nokkrum dögum fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar.  Vegagerðin einblínir á leið Þ-H og segist ætla að „rýna“ í niðurstöður Skipulagsstofnunar.  Með öðrum orðum þeir ætla að virða niðurstöðu skipulagsstofnunar að vettugi. Ég vona að sveitarstjórnarmenn í Reykhólahreppi hafi ekki gert upp hug sinn. Margir halda að allt snúist um Teigsskóg en svo er alls ekki. Misþyrming hans væri enn eitt umhverfisslysið, en margt kemur til er hvetur til gangnagerðar til framtíðar. Þar verður að ríkja víðsýni og fyrirhyggja.

Vegagerðin gekk gegn áliti Skipulagsstofnunar við þveranir Kjálka og Mjóafjarðar og sveik loforð um bátsgengar brýr svo hægt væri að slá þang með viðunandi hætti. Lokuðust þar inni u.þ.b. 2 % af þangafla Breiðafjarðar. Það ætti sveitarstjórn Reykhólahrepps að hafa áhyggjur af. Ekki síst ætti hún að hafa áhyggjur af því að með framkvæmd á leið Þ-H er verið að loka inni jafnmikið magn eða meira 2-3 % af þangbreiðum Breiðafjarðar. Þess má geta að ef þessi svæði eru lögð saman með því er lokaðist inni í þverun Kolgrafarfjarðar eru þetta rúmlega 6 % af þangbreiðum Breiðafjarðar. Það kann ekki að vera stór prósenta á prenti,en „dýr myndi Hafliði allur“.   Þörungaverksmiðjan á Reykhólum er stærsti vinnuveitandinn í hreppnum og dýrgripur í vinnslu sjávarfangs. Hennar veiðilendur ber að vernda og  það er óskynsamlegt að gelda bestu mjólkurkúna.  Skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um svæðið tekur af allan vafa um slæm og ófyrirséð áhrif á lífríkið. Ekki sé hægt að segja til um skaðann vegna straumhraða á seti.

Það er talað um að brunaslys séu hættuleg þegar 9 % líkamans séu brunnin. Í samlíkingunni er búið að brenna Breiðafjörð um rúmlega 10 -15% og hætta á ferðum. Er ekki rétt að umhverfið njóti vafans og við keyrum frekar eftir góðum göngum í stað þess að flengjast út um nes.

Með leið Þ-H verða tún og ræktunarmöguleikar bænda á Skálanesi lögð í rúst. Búskap trúlega sjálfhætt. Er það enn eitt örið í þessa fallegu jörð en vegurinn fyrir nesið er eitt samfellt umhverfisslys.  Farsælla hefði verið að gera stutt göng frá Gufudal til Galtarár eins og ég hef áður komið að. Leiðir skólabíla munu víða lengjast og er ekki ábætandi. Leið barna til skóla mun verða rúmlega klukkutími við bestu aðstæður.  Ekki er snjómokstur og hálkuvarnir til þess fallnar að batna nema síður sé. Það eru nefnilega börn í hreppnum og mikið af þeim miðað við íbúafjölda. Ekki horfir vænlega fyrir íbúa í Djúpadal og Gufudal með lengri tengingar við aðalveginn með tilheyrandi þjónustuleysi við þá vegi.  Ætlar sveitarstjórn að leggja til tvo skólabíla á svæðið ?

Það er undarlegt að gera leið D2 tortyggilega með veghalla og skeringum. Hver hannaði veglínuna ? Var haft samband við heimamenn ? Var tekið inn i myndina að nota vegskála eftir nýjustu tækni ?  Sporin frá Klettshálsi hræða.  Rætt var við ágætan vörubílstjóra í útvarpi um daginn,hann tók dæmi um veginn um Arnkötludal, eða Þröskulda. Hann væri það hátt uppi að þar væri alltaf kolvitlaust veður og ófært, þó ágætt væri í byggð.  Líkti því við nýja veglínu og hæð á Ódrjúgshálsi. Hann gleymdi að minnast á það að á Þröskuldum var EKKI farið eftir ráðleggingum heimamanna sem gjörþekktu svæðið. Niðurstaðan var „vitlaust“ vegstæði sem skapar hættu og kostnað, gríðarlegan kostnað við snjómokstur, slys og örkuml. Hví hefur vegagerðin hundsað ráð heimamanna er gjörþekkja svæðið bæði á láði og legi.  Er hægt að fullyrða að ný veglína upp Ódrjúgsháls yrði með 8% halla ?  Hvers vegna hefur vegagerðin stungið ofan í skúffu veglínu um Ódrjúgsháls er nær aðeins í 90 metra hæð og er því alls ekki fjallvegur. Samt kemur vegmálastjóri í fjölmiðla og fullyrðir að aðeins sé ein leið á láglendi. ( til samanburðar er ártúnshöfði í 70 metra hæð yfir sjó) Einnig hefur verið á teikniborðinu mun styttri göng sem hafa farið í skúffuna líka. Er hugsanlegt að verið sé að láta eina veglínu líta illa út til að hygla annari ? Svari nú hver fyrir sig.  Kunnugir telja vel framkvæmanlegt að bættur vegur á Ódrjúgshálsi yrði tilbúinn síðla árs 2018.

Það er einfaldur fyrirsláttur að segja að ekki séu til peningar fyrir göngum í leið D2. Eru til peningar í framtíðinni til snjómoksturs eða hálkuvarna á leið Þ-H ? Svo ekki sé minnst á viðhald. Hvað hefur sparast í minni snjómokstri í vetur á landsvísu ?  Er það kannski ein göng eða svo ?  Þær álögur sem lagðar eru á bíleigendur fara létt með að bæta vegakerfið svo um munar. Það eina sem vantar er kjarkur að taka á málunum. Vegagerð ríkisins ætti að bjóða út 15-20 jarðgöng til að ná fram góðum samningum og stíga inn í nýja öld.  Ég óska sveitarstjórn Reykhólahrepps velfarnaðar í störfum sínum og bið þau að gæta vel að ákvörðunum sínum er þau ganga til verka. Verka sem munu hafa áhrif á lífríki og mannlíf í Reykhólahreppi um aldir alda.

Virðingarfyllst.

Stefán Skafti Steinólfsson. Breiðfirðingur.

DEILA