Mun betri afkoma Vesturbyggðar

Niðurstaða ársreiknings Vesturbyggðar fyrir árið 2016 er mun betri en fjárhagsáætlun ársins 2016 með viðaukum gerði ráð fyrir. Samstæða Vesturbyggðar, A og B-hluti, skilar 99,7 millj. kr. jákvæðum rekstrarafgangi. Skýrist það einkum af hærri skatttekjum. Framkvæmdir voru miklar í sveitarfélaginu á liðnu ári. Tekjur sveitarfélagsins og launakostnaður er hærri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2016. Skuldahlutfall í árslok 2016 var 119% ívið hærra en í árslok 2015 er það var 115%. Í árslok 2014 var skuldahlutfallið 110% og 136% í árslok 2013. Íbúum fjölgaði um 1,8% á milli ára.

Bókfærðar heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins eru 191 millj.kr. hærri í árslok 2016 en í árslok 2015.
Rekstrartekjur A og B-hluta námu 1.314 millj. kr. samanborið við 1.199 millj. kr. á árinu 2015. Hækkun tekna milli ára nemur því 115 millj. kr.
Rekstrargjöld A og B-hluta, þ.e. laun og launatengd gjöld, annar rekstrarkostnaður og afskriftir námu á árinu 2016 1.159 millj. kr. en voru 1.157 millj. kr. á árinu 2015.

Í ársreikningi kemur fram að rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 34 milljónir kr. á árinu 2016 en var neikvæð um 30 milljónir kr. á árinu 2015.
Hafnarsjóður, Vatnsveita, Fráveita, Félagslegar íbúðir og Fasteignir Vesturbyggðar ehf. teljast til B-hluta sveitarfélagsins. Rekstrarniðurstaða allra B-hluta stofnana er jákvæð og í heild sinni var hún jákvæð um 66 millj. kr.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur A og B-hluta árið 2016 námu 55 millj. kr. en fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 51 millj. kr. árið 2015.
Samkvæmt sjóðstreymisyfirliti nam veltufé frá rekstri A og B-hluta 169 millj. kr. á árinu 2016 samanborið við 66 millj. kr. á árinu 2015. Að teknu tilliti til breytinga á rekstrartengdum eignum og skuldum nam handbært fé frá rekstri A og B-hluta 164 millj. kr. á árinu 2016 samanborið við handbært fé frá rekstri 105 millj. kr. á árinu 2015.
Handbært fé hækkaði um 36 millj. kr. á árinu og nam það 80 millj. kr. í árslok 2016.

DEILA