Mótmæla áformum Arnarlax

Veiði- og stangveiðifélög við Eyjafjörð, átta talsins, mótmæla harðlega áætlun Arnarlax ehf. á Bíldudal um framleiðslu á 10.000 tonnum af frjóum eldislaxi af norsku kyni í Eyjafirði, en Arnarlax gaf nýlega út drög tillögu að matsáætlun sjókvíaeldis í firðinum. Nái hún fram að ganga gætu orðið að jafnaði fimm milljónir frjórra laxa í sjókvíum í Eyjafirði. Augljós hætta stafar af slíku eldi fyrir veiðiár í Eyjafirði sem og náttúruna í heild, segir í tilkynningu félaganna. Þar segir jafnframt að viðurkennt sé að einn lax sleppi fyrir hvert tonn af laxi sem framleitt er. Samkvæmt því munu um 10.000 laxar sleppa úr kvíum Arnarlax í Eyjafirði á hverju ári sem er tíu til tuttugufalt fleiri laxar en ganga í Fnjóská á hverju ári. Líkurnar á því að laxastofninn í Fnjóská þoli slíkt álag frá framandi stofni eru engar. „Þá stefnir þetta eldi einnig öðrum ám í verulega hættu. Má þar nefna Laxá í Aðaldal, Skjálfandafljót, Fljótaá, Blöndu, Vatnsdalsá og Víðidalsá.“ Veiði- og stangveiðifélögin í Eyjafirði hvetja stjórnvöld til að hafna þessum áformum. Jafnframt hvetja þau sveitarfélög, veiðifélög, smábátasjómenn, veiðimenn og náttúruunnendur til að mótmæla þessum áformum á öllum stigum. „Fram undan er hörð barátta til verndar náttúrunni í Eyjafirði,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.

DEILA