Mikil gleði á Skíðavikunni

Gleðin var við völd á Skíðavikunni. Mynd: Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Skíðavikan á Ísafirði á sér langa sögu og hafa gestir streymt til Ísafjarðar allt frá því árið 1935 til að taka þátt í hátíðarhöldum hennar vegna. Sú var áður tíðin að nokkurn vegin mátti treysta á að nægur snjór væri á skíðasvæði Ísafjarðar um páska, bæði voru veturnir harðari og einnig vegna staðsetningar svæðisins sem þá var í heild sinni á Seljalandsdal. Hin síðari ár hefur ekki alltaf mátt treysta á veðurguðina til samstarfs, að þeir annarsvegar komi með snjóinn eða haldi veðri og vindum með skaplegum hætti svo útivist sé með góðu móti iðkandi. Í ár bar svo við að dúndursending af snjó mætti í Skutulsfjörð vikuna fyrir páska og í framhaldinu var veðrið með besta móti í páskavikunni.

Að sögn Hlyns Kristinssonar forstöðumanns Skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar ríkti frábær stemning á skíðasvæðunum í Tungudal og á Seljalandsdal um páskana og segir hann snjósendinguna góðu öllu hafa bjargað. Þegar að mest var sóttu á milli 1100 og 1200 manns svæðið og var til að mynda troðin 25km Fossavatnsbraut sem gestir nýttu sér vel. Hlynur segir hvergi slakað á í skíðaiðkuninni því núna séu allir á leið norður í land á Andrésarleikana og í framhaldi af því vindi sér allir í Fossavatnsgönguna, svo fyrir skíðakrakka sé þetta hálfgerður maraþonmánuður.

Esther Arnórsdóttir er framkvæmdastjóri Skíðavikunnar og segist hún mjög sátt með hvernig til tókst í ár og segir slíkt gilda með aðra sem að hátíðinni komu. Hún segir furðufatadaginn í Tungudal hafa heppnast sérlega vel í ár þar sem í þetta sinn tókst að hafa karamelluregnið vinsæla sem hefur þurft að sleppa síðastliðin þrjú ár vegna veðurs og þar skemmti tónlistarmaðurinn Rúnar Eff gestum. Einnig tókst með miklum ágætum furðufatadagurinn á Seljalandsdal sem haldinn var á laugardag og þar tóku þátt í páskaeggjamóti um 50 börn og má sjá á meðfylgjandi myndum sem Hólmfríður Vala Svavarsdóttir tók að þar var gleðin við völd.

annska@bb.is

DEILA