Metumferð um Djúp í Dymbilviku

Aldrei hafa fleiri lagt leið síða á Ísafjörð um páskana. Hér má sjá fullt út úr dyrum rokkskemmunnar. Mynd: Ásgeir Helgi Þrastarson.

Páskar á Ísafirði hafa löngum laðað að gestir til bæjarins og nærliggjandi bæjarfélaga, enda má segja að norðanverðir Vestfirðir titri af fjöri í dymbilviku. Skíðavikan og rokkhátíð alþýðunnar Aldrei fór ég suður, þar sem finna má heilmikla dagskrá allt frá því er Skíðavikan er sett á miðvikudegi og fram á annan dag páska. Rokkskemman er iðulega stappfull af fólki og stemningin á Ísafirði verður í nokkra daga líkt og í stórborg, hvar heimaríkir hundar fá ekki bílastæðin sín og fólk út um allt. Ekki er hægt að segja fyrir víst hversu margir leggja leið sína vestur um páskana en lengi hefur það verið notað að íbúafjöldinn á Ísafirði tvöfaldist.

Í tölum Vegagerðarinnar yfir umferð um Ögur fyrir páska, nánar tiltekið frá þriðjudegi til laugardags má sjá að aldrei hafa verið fleiri á ferð um Ísafjarðardjúp en í ár er 1424 bílar fóru þar í gegn, það er talsvert meira en á síðasta ári er þeir voru 1271. 2015 voru þeir 1184 og 1147 2014. Heldur fleiri voru þeir árið á undan eða 1247 og metið fram til þessa var árið 2012 er 1301 bíll fór um Ögur. Ef við förum aðeins lengra aftur má sjá að 2009 var umferðin enn undir þúsund bílum er 995 voru á ferðinni, en ef við lítum til fyrsta ársins sem Aldrei fór ég suður var haldin árið 2004 þá fóru 775 bílar um Ögur.

Aldrei hafa fleiri bílar farið um Ögur í dymbilviku. Mynd: Ögur travel

Um 1000 farþegar voru svo fluttir til og frá Ísafirði um páskana með Flugfélagi Íslands og er það svipað og var á síðasta ári. Að sögn Arnórs Jónatanssonar umdæmisstjóra flugfélagins á Ísafirði gengu flugsamgöngur eins og í sögu þessa páskana og ekki féll niður flug alla vikuna fyrir páska. Aflýsa þurfti tveimur síðdegisvélum á öðrum degi páska vegna veðurs fyrir sunnan, en þá áttu að fara fimm vélar. Tveimur var þó flýtt til að koma sem flestum aftur til síns heima áður en veðrið skall á af fullum þunga, en eftir hádegið lágu flugsamgöngur niðri frá Reykjavík.

Bílaumferð gekk einnig stórslysalaust fyrir sig og var aðeins eitt umferðaróhapp tilkynnt til lögreglu er flutningabifreið og snjóruðningstæki rákust saman á Steingrímsfjarðarheiði á annan dag páska.

annska@bb.is

DEILA