Má vera berbrjósta í sundi

Bikini, burkini eða bara skýla

Ekki er lagalegur grundvöllur fyrir því að sveitarfélög setji sundlaugargestum skorður varðandi klæðaburð. Þetta er álit Unnars Steins Bjarndals hæstaréttarlögmanns en íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar fékk hann til að fjalla um þetta mál. Ráðið tók undir niðurstöðu Unnars á fundi þess í febrúar og lagði til við bæjarstjórn Reykjanesbæjar að ekki verði farið gegn álitinu. Tilefni álitsgerðarinnar var mikil umræða um það í samfélaginu hvort fyrir hendi séu reglur, skráðar eða óskráðar, sem gilda um klæðaburð sundlaugargesta. Fyrr á árinu kom upp atvik þar sem berbrjósta konu var vísað upp úr Jaðarsbakkalaug á Akranesi. Haft var eftir forstöðumanni íþróttamannvirkja á Akranesi að engar starfsreglur lægju fyrir um hvernig bregðast skyldi við slíkum atvikum. Í gildi væri óskráð meginregla í sveitarfélaginu um að konur þyrftu að klæðast bikinítopp. Þetta kemur fram í frétt á ruv.is í gær.

Ekki liggur fyrir hvað reglur gilda í Sundlaugum Ísafjarðarbæjar eða Bolungarvíkur hvað þetta varðar. Engu að síður virðist aðgerðarhópur vestfirskra kvenna hafa fjölmennt í Sundhöll Ísafjarðar berar að ofan og haft var eftir ábyrgðarkonu aðgerðanna að karlmönnum yrði tekið fagnandi. Þetta kom fram á bb.is þann 1. apríl 2015

bryndis@bb.is

 

DEILA