Krókur hvetur þingmenn að breyta strandveiðikerfinu

 

Smábátafélagið Krókur á Patreksfirði lýsir yfir ánægju og stuðningi við frumvörp til breytinga og úrbóta á strandveiðikerfinu og hvetur alþingismenn allra flokka til að styðja breytingar sem þar koma fram, sem stuðla að meira öryggi við veiðarnar. Tvö frumvörp um breytingar á strandveiðum bíða afgreiðslu Alþingis. Annars vegar frumvarp þingmanna Vinstri Grænna og hins vegar frumvarp þingmanna Pírata.

Frumvarp Vinstri grænna felur í sér að horfið verður frá heildarpottum hvers strandveiðisvæðis og strandveiðibátum verður úthlutað 12 veiðidögum í fjóra mánuði, frá maí til ágúst. Frumvarpið gerir ráð fyrir að breytingin sem lögð er til gildi aðeins fyrir strandveiðitímabilið sem hefst 2. maí næstkomandi. Ekki þykir rétt að hafa 12 daga val ótímabundið þar sem óvissa er um hversu mikið strandveiðibátar veiða með þessu breytta fyrirkomulagi. Áfram verði óheimilt að róa á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og sömu takmarkanir verði á veiði hvers dags.

Í frumvarpi Pírata er gert ráð fyrir að strandveiðitímabilið verði lengt og standi frá 1. mars til 31. október og að hver bátur fái úthlutað 50 dögum til veiða að eigin vali innan tímabilsins. Í greinargerð með frumvapinu segir að ætlunin með því sé að styrkja rekstrargrundvöll smábátaútgerðar fyrir þá sem ekki eru handhafar aflamarks, auk hagræðis fyrir smábátasjómenn.

DEILA