Kröfugöngur og kaffiboð á 1. maí

Frá kröfugöngunni á Ísafirði í fyrra.

1.maí – alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, er á mánudaginn og verða hátíðarhöld í tilefni dagsins á Ísafirði, Suðureyri og í Bolungarvík. Líkt og hefðin segir til um verður farið  í kröfugöngur, þar sem launafólk gengur saman undir rauðum fánum og syngur Nallann, en 95 ár eru síðan fyrst var gengin slík ganga hér á landi þann 1.maí. 1923 og talsvert seinna, eða árið 1972, var dagurinn gerður að lögskipuðum  frídegi á Íslandi.

Á Ísafirði verður haldið í kröfugöngu frá Baldurshúsinu við Pólgötu klukkan 14. Þaðan verður gengið að Pollgötu og niður að Edinborgarhúsi með Lúðrasveitina í fararbroddi, en hún mun einnig leika nokkur lög fyrir gesti eftir að í Edinborgarhúsið er komið. Ræðumaður dagsins er Bergvin Eyþórsson sjómaður, en hann var mjög sýnilegur baráttumaður fyrir bættum kjörum í sjómannaverkfallinu fyrr í vetur, einnig mun taka til máls verkakonan Kolbrún Sverrisdóttir. Boðið verður upp á tónlistaratriði, sópransöngkonan Sigrún Pálmadóttir syngur við undirleik Beötu Joó og einnig stíga á stokk sigurvegarar Músíktilrauna þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir sem skipa saman dúettinn Between Mountains. Þá verður boðið upp á atriði úr Dýrunum í Hálsaskógi sem leikdeild Höfrungs á Þingeyri setti nýverið á svið.

Að dagskrá lokinni verður boðið upp á kaffiveitingar í umsjón Slysavarnardeildarinnar Iðunnar í Guðmundarbúð, Sindragötu 6. Þá verða á sínum stað í Ísafjarðarbíói kvikmyndasýningar fyrir börnin, bæði klukkan 14 og 16.

Á Suðureyri hefjast hátíðarhöldin einnig klukkan 14 með kröfugöngu frá Brekkukoti. Þá verður boðsund barna í Sundlaug Suðureyrar og í félagsheimilinu verður hátíðardagskrá og kaffiveitingar þar sem ræðumaður dagsins er alþingiskonan Lilja Rafney Magnúsdóttir. Þá verður boðið upp á tónlist og söng frá börnunum í bænum og einnig koma þar fram stöllurnar í Between Moutains.

Í Bolungarvík býður Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur bæjarbúum í kaffi og meðlæti klukkan 14:30 í Félagsheimili Bolungarvíkur, þar sem 8. og 9. bekkir Grunnskólans í Bolungarvík sjá um veitingarnar. Þar koma fram nemendur Tónlistarskóla Bolungarvíkur og félagarnir Hjörtur Traustason og Bjarki Einarsson syngja nokkur lög.

Baráttudagurinn á rætur sínar að rekja til ársins 1889 er á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París var samþykkt tillaga þess efnis 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks. Valið á þessum degi styðst við rótgróna hefð í sunnanverðri Evrópu þar sem menn tóku sér oft frí þennan dag. Í heiðnum sið var hann táknrænn fyrir endalok vetrarins og upphaf sumarsins.

annska@bb.is

DEILA