Íbúalýðræði og íbúasamráð – betri stjórnsýsla eða orðagjálfur?

Arna Lára Jónsdóttir.

Í-listinn setti íbúalýðræði og opnari stjórnsýslu í sérstakan forgang í upphafi kjörtímabilsins með það fyrir augum bæta stefnumótun sveitarfélagsins og ákvarðanatöku með aukinni aðkomu íbúanna. Einnig var markmiðið að auka þátttöku og samkennd íbúanna í samfélaginu.

Leiðarljós Í-listans þegar kemur að íbúalýðræði er að með aðkomu íbúa sem best þekkja til ákveðinna mála og með aðkomu fleiri en færri að ákvörðunum verði þær betri. Betur sjá augu en auga, og eins og sagt er á Aldrei fór ég suður hátíðinni „Maður gerir ekki rassgat einn“. Enn er löng leið fyrir höndum að auka samráð við íbúa, en þó hefur margt áunnist nú þegar.

Eitt af því fyrsta sem við gerðum var að setja á fót tímabundna nefnd til að halda utan verkefnið, svo sem að koma upp hverfisráðum þar sem þau voru ekki til staðar, öldungaráði og ungmennaráði og gera þau af sjálfstæðum hluta í stjórnsýslu  bæjarins. Áður voru starfandi virk íbúasamtök á Þingeyri, Flateyri og Hnífsdal. Í dag höfum við sex starfandi hverfisráð og mjög öflugt öldungaráð. Nokkur áhugasöm ungmenni sem láta málefni  nærsamfélagsins sig varða hafa svo boðið fram aðstoð sína til að koma á fót ungmennaráði sem vonandi verður sem fyrst. Það eru hinsvegar til fjölmargar aðrar leiðir til að stunda íbúasamráð, hverfisráð auk öldunga- og ungmennaráðs eru bara ein aðferð.

Íbúasamráð og íbúalýðræði er viðleitni til að bæta stjórnskipan á sveitarstjórnarstiginu. Það gengur út á að fá íbúa til að taka þátt í undirbúningi mála fyrir sveitarstjórn eða með þátttöku í atkvæðagreiðslum, hvort sem þær eru bindandi eða ráðgefandi. Samráð við íbúa er því í stórum dráttum tvíþætt, annars vegar þátttaka í atkvæðagreiðslum og hins vegar í gegnum samráð sveitarstjórnar við íbúa, s.s. með íbúafundum af ýmsu tagi og virkum hverfisráðum.

Við í Í-listanum viljum að íbúar sveitarfélagsins geti haft meiri áhrif á nærumhverfi sitt og þau mál sem varða þeirra hagsmuni án þess að skuldbinda sig í skipulögðu flokkspólitísku starfi. Við höfum innleitt starfshætti sem eru til þess fallnir að efla lýðræði og auka þátttöku almennings í bæjarmálum með það fyrir augum að bæta vinnubrögð og ákvarðanatöku.

Ein af þeim leiðum sem við höfum farið til að virkja hverfisráðin er að marka þeim sérstakt framkvæmdafé til að nýta í sitt nærumhverfi. Það hefur reynst vel, t.a.m. í Öndunarfirði þar sem hverfisráðið hefur lagt áherslu á að nýta sitt framkvæmdafé til að skapa betra umhverfi fyrir börn. Nú þegar hefur verið settur upp ærslabelgur og til stendur að setja upp aparólu. Þessi tvö verkefni eru dæmi um skemmtilegar framkvæmdir sem bæta nærumhverfið en hefðu sennilega aldrei orðið að veruleika eftir hefðbundnum leiðum.

Íbúasamráð virkar

Nú þegar höfum við mjög góða reynslu af íbúasamráði. Skortur á dagvistunarplássum í Skutulsfirði hefur verið eitt af þeim stóru málum sem við höfum verið að fást við. Við tókum meðvitaða ákvörðun  um að reyna að upplýsa foreldra markvisst um stöðu mála og kalla eftir skoðunum þeirra á þeim kostum sem í boði voru. Haldin var fundur með foreldrum leikskólabarna og opnuð Facebook síða þar sem upplýsingar eru settar inn en er jafnframt vettvangur fyrir foreldra til að spyrja spurninga eða koma skoðunum sínum á framfæri. Árangurinn af þessu íbúasamráði er sá að 5 ára deildin Tangi hefur verið opnuð í Tónlistarskólanum sem mikil ánægja er með. Samráðið og upplýsingagjöfin um dagvistunarmál hefur haft mjög jákvæð áhrif á stjórnsýsluna, upplýsingaflæðið er betra og dregið hefur úr óvissu meðal foreldra um hvenær börn komast inn á leikskóla.

Við erum í sambærilegu ferli á Flateyri þar sem bæjaryfirvöld, foreldrar og íbúar á Flateyri eru saman að leita leiða til að styrkja skólastarf á Flateyri.  Áður höfðu hugmyndir bæjarstjórnar um að sameina leik- og grunnskóla á einn stað fallið í afar grýttan jarðveg meðal íbúa en þar skorti upp á íbúasamráð. Það var okkur lærdómsríkt, en við tókum nokkur skref aftur á bak og byrjuðum á réttum stað. Ég er bjartsýn að sú sameiginlega vinna sem nú er í gangi eigi eftir að skila okkur góðri niðurstöðu fyrir skólastarf á Flateyri og okkur takist með markvissu íbúasamráði að ávinna okkur traust íbúa.

Það leikur engin vafi á því í mínum huga að með samráði við íbúa getur náðst meiri sátt og ánægja með mótun og framkvæmd stefnu bæjarstjórnar.

Öldungaráð

Öldungaráð er skipað 5 fulltrúum og jafnmörgum til vara. Bæjarstjórn kýs tvo fulltrúa og samtök eldri borgara tilnefna þrjá fulltrúa. Öldungaráðið skal vera bæjarstjórn, nefndum og ráðum Ísafjarðarbæjar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni bæjarbúa sem eru 67 ára og eldri. Ráðinu er ætlað að stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi Ísafjarðarbæjar við hagsmunasamtök hópsins, móta stefnu og gera tillögur til bæjarstjórnar sem varðar verksvið þess. Öldungaráðið er samráðsvettvangur eldri bæjarbúa, félagasamtaka þeirra, atvinnulífs og bæjaryfirvalda og er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins.

Öldungaráðið hefur farið mjög vel af stað og er þegar farið að virka sem skyldi. Ráðið hefur verið öflugur málsvari eldri borgara og komið sterkt inn í umræðuna um húsnæðismál eða réttara sagt húsnæðiskort þessa aldurshóps og brýnt bæjarstjórn í þeim efnum.  Öldungaráð og bæjarstjórn hafa þegar haldið einn sameiginlegan fund um málefni eldir borgara, en samkvæmt samþykktum skal það gert einu sinni á ári. Fundagerðir öldungaráðs eru lagðar fyrir bæjarstjórn líkt og gert er með fundargerðir hverfisráðanna, og fá þar umræðu meðal bæjarfulltrúa.

Ungmennaráð

Hugsunin á bak við ungmennaráð er ekki ólík þeirri sem sem er að baki öldungaráði. Það á að vera málsvari síns aldurhóps og vera bæjarstjórn til ráðgjafar. Tilgangur ungmennaráðs Ísafjarðarbæjar er annars vegar að veita ungmennum fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og hins vegar að skapa vettvang og leiðir til þess að gera ungmennum kleift að koma hugmyndum og skoðunum sínum á framfæri m.a. við kjörna fulltrúa sveitarfélagsins. Ungmennaráð á að vera skipað 9 fulltrúum ungmenna sem tilnefnd erum af grunnskólum bæjarins og Menntaskólanum á Ísafirði. Einnig er gert ráð fyrir að einn fulltrúi sé skipaður utan skóla. Ef vel tekst til við að virkja ungmenni til að starfa í ráðinu mun það án efa vera jafn öflugur vettvangur fyrir þennan aldurshóp eins og öldungaráðið er þegar orðið.

Hvernig gerum við góðan bæ betri?

„Hvernig gerum við góðan bæ betri?“ var yfirskrift vel heppnaðs málþings sem við héldum í mars í samstarfi við hverfisráðin. Málþingið er að mínu mati mikilvægur hluti af lærdómsferlinu við að virkja íbúalýðræði og íbúasamráð. Þar fengum við að heyra mjög gagnlegar framsögur frá hverfisráðunum sex þar sem fulltrúar þeirra fóru yfir reynslu sína og upplifun af starfinu og samskiptum sínum við bæjaryfirvöld, og komu með góða punkta um hvað betur mætti fara.

Auk heimamanna hélt Anna Guðrún Björnsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þrusugott erindi um um íbúalýðræði, samráð og þátttöku íbúa í ákvarðanatöku, en Sambandið ætlar að gefa út handbók um íbúasamráð í haust sem á án efa eftir að nýtast okkur vel.

Halldór Auðar Svanson borgarfulltrúi í Reykjavík sagði okkur frá reynslu Reykvíkinga af íbúasamráði. Borgin hefur farið aðeins aðrar leiðir í ástundum íbúasamráðs en við í Ísafjarðarbæ. Munurinn felst einkum  í því að þar eru hverfisráðin pólitískt skipuð í stað þess að vera valin ópólitískt af íbúunum sjálfum líkt og hér. Gagnlegt var að heyra um reynslu Reykvíkinga og ljóst að þar á bæ er einnig smátt og smátt verið að feta sig eftir þessum nýju brautum.

Að framsögum loknum var blásið til vinnustofu þar sem íbúar og kjörnir fulltrúar skiptust á skoðunum  og reynslu um hvað vel hefði tekist til þessa og hvað við getum gert til að ná betri árangri. Framsögumenn málþingsins tóku þátt í umræðunum auk Kristjáns Halldórssonar frá Byggðastofnun sem unnið hefur í verkefninu Brothættar byggðir, en það verkefni byggir að miklu leyti á valdeflingu til íbúa.

Áfram veginn

Það kom berlega í ljós á málþinginu að nú þegar hefur margt áunnist með hverfisráðunum þó við getum enn gert miklu betur. Upplýsingar um fyrirhugaðar ákvarðanir eiga nú mun greiðari leið til íbúa en áður og þeir eiga betri möguleika á að gera gagnlegar athugasemdir um það sem varðar þeirra nærumhverfi. Einnig kom í ljós á málþinginu að við stöndum í fremstu röð á landsvísu í því að virkja íbúasamráð með hverfisráðunum, sem var mjög ánægjulegt að heyra. Málþingið leiddi af sér ýmsar góðar hugmyndir um hvernig við getum þróað málin áfram til enn betri vegar og við hlökkum til að hrinda þeim í framkvæmd.

Arna Lára Jónsdóttir

formaður bæjarráðs og nefndar um íbúalýðræði og virkari stjórnsýslu

DEILA