Hvalveiðar og verslun Hollendinga í Vísindaporti

Dr. Ragnar Edvardsson.

 

Í Vísindaporti Háskólasetursins á morgun verða til umfjöllunar hvalveiðar og verslun Hollendinga á Íslandi á 17. og 18. öld. Dr. Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur og sérfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands, flytur erindið en hann hefur rannsakað þennan fróðlega tíma í sögu þjóðarinnar um nokkurt skeið.

Á 17. öld urðu Niðurlönd leiðandi verslunarveldi í Evrópu, með verslunarsambönd sem náðu út um allan heim. Við upphaf einokunarverslunar Dana árið 1602 höfðu dönsk stjórnvöld ekki burði til að viðhalda verslun á Norður Atlantshafssvæðinu á sama hátt og verið hafði á öldunum þar á undan. Hollendingar höfðu bæði fjármagn og skipastól til að stíga inn í það tómarúm sem myndaðist vegna einokunarverslunar Dana. Hollendingar urðu því fljótt leiðandi í verslun og hvalveiðum á Norður Atlantshafinu. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um veru Hollendinga og efnahagsleg áhrif þeirra á Íslandi á fyrstu öldum einokunarverslunar með áherslu á þann hluta starfsemi þeirra sem ekki hefur ratað í opinberar ritheimildir, þ.e. hvalveiðistöðvar og ólöglega verslun.

Dr. Ragnar Edvardsson er eins og áður segir fornleifafræðingur og sérfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum sem staðsett er í Bolungarvík þar sem Ragnar er einmitt búsettur. Hann lauk námi í klassíkum fræðum frá Háskóla Íslands, síðan meistaranámi í rómverskri fornleifafræði frá University College of London og loks varði hann doktorsritgerð í fornleifafræði árið 2010 við City University of New York. Doktorsritgerðin fjallaði um hlutverk sjávarauðlinda í miðaldasamfélagi Vestfjarða. Síðustu ár hefur Ragnar einkum stundað rannsóknir á strand- og neðansjávarminjum með áherslu á fiskveiðar, hvalveiðar og verslun fyrri alda.

Vísindaportið er opið almenningi og fer fram í kaffistofu Háskólaseturs á morgun föstudag kl. 12.10-13.00. Fyrirlesturinn að þessu sinni fer fram á íslensku.

DEILA