Hafísrannsóknir frá Ísafirði

Hafís úti fyrir Vestfjörðum.

Bandarískt teymi í hafís-, veður- og loftslagsrannsóknum hefur komið sér upp bækistöð á Ísafjarðarflugvelli og Háskólasetri Vestfjarða til að stunda mælingar á áhrifum vindafars og geislunar á hreyfingu hafíss. Teymið mun fljúga í lágflugi yfir lagnarísinn úti á Grænlandssundi og safna ýmsum veðurfarstengdum gögnum, sem munu nýtast til að bæta flugöryggi og dýpka þekkingu á loftslagsbreytingum.

Verkefnið er samstarfsverkefni Veðurfræðideildar Háskóla bandaríska sjóhersins (Naval Postgraduate School) og Háskólaseturs Vestfjarða. Nemar í starfsþjálfun á Háskólasetri Vestfjarða sem stunda nám hafeðlisfræði við Tækniháskólanm í Toulon í Frakklandi munu vinna úr mælingum sem aflað er í leiðangrinum.

Bandaríska teymið samastendur af sex manns, rannsóknarmönnum, flugmönnum og flugvirkja og mun það dvelja á Ísafirði fram í miðjan maí. Sérútbúin Twin Otter-flugvél í eigu bandaríska sjóhersins verður notuð við rannsóknirnar og mun hún sennilega ekki fara framhjá íbúum í Skutulsfirði þessa daga. Flugmennirnir hafa notið leiðsagnar hjá Ísfirðingnum Hálfdáni Ingólfssyni sem hefur mikla reynslu af flugi á norðurslóðum og víðar við mismunandi aðstæður.

yrir teyminu fer Hafliði Jónsson rannsóknarprófessor við loftslagsdeild háskóla bandaríska sjóhersins í Kaliforníu. Hafliði vann um árabil hjá Veðurstofu Íslands og sinnti á þeim tíma snjóflóðarannsóknum og var frumkvöðull í því að beita eðlisfræðilegum aðferðum við að meta útbreiðslu snjóflóða. Teymið kom vestur á Ísafjörð fyrir milligöngu Björns Erlingssonar, sérfræðings hjá Veðurstofu Íslands í sjávarflóðarannsóknum og lagnarísrannsóknum.

Staðsetningin á Ísafirði hefur hefur mikla þýðingu fyrir útfærsluna á verkefninu, en hafíssvæðið sem valið er til rannsóknanna liggur á milli Vestfjarða og Grænlands.  Þar sem flugvélin flýgur mikið til lágflug við mælingar yfir ísnum fást fyrir vikið umtalsvert meiri mælingar úr þeim flugtíma sem varið er vegna staðsetningarinar á Ísafjarðarflugvelli.

smari@bb.is

 

DEILA