Frjósemi minni en nokkru sinni fyrr

Frjósemi kvenna á Íslandi er minna en nokkru sinni fyrr og fæddust færri börn í fyrra en árið á undan. Meðalaldur frumbyrja heldur áfram að hækka og var 27,7 ár í fyrra. Algengast er á Íslandi  að barn fæðist utan hjónabands miðað við önnur lönd í Evrópu. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar.
Árið 2016 fæddust 4.034 börn á Íslandi, sem er fækkun frá árinu 2015 þegar 4.129 börn fæddust. Alls fæddust 2.042 drengir og 1.992 stúlkur, en það jafngildir 1.025 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.

Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Árið 2016 var frjósemi íslenskra kvenna 1,75 börn á ævi hverrar konu og hefur hún aldrei farið lægra frá því að mælingar hófust árið 1853. Árið 2015 var frjósemi 1,81 en það er næstlægsta frjósemi sem mælst hefur hér á landi. Undanfarinn áratug hefur frjósemi á Íslandi verið rétt um tvö börn á ævi hverrar konu.

Frjósemi á Íslandi hefur verið með því mesta sem þekkist í Evrópu á síðustu árum. Árið 2015 var frjósemi yfir tveimur í Frakklandi (2,14) en þess utan voru öll löndin undir tveimur. Þá var frjósemi að meðaltali 1,58 í 28 löndum Evrópusambandsins árið 2015. Síðustu ár hefur fæðingartíðni innan álfunnar verið lægst í löndum Suður-Evrópu og er árið 2015 engin undantekning, en fæðingartíðni var 1,31 í Portúgal, 1,32 á Kýpur og 1,33 á Grikklandi.

DEILA