Dekstrað við hunda á bolvískri baðstofu

Helena á Hundabaðstofunni með fjárhundahópinn sinn, Kollu sem er þýskur fjárhundur, Söru sem er íslenskur fjárhundur og Goða sem er rough collie.

Það er margt sem þrífst við nyrsta haf og hefur þjónustan sem nálgast má á norðanverðum Vestfjörðum tekið talsverðum breytingum síðustu árin. Sumstaðar bætist í á meðan á öðrum stöðum dregst saman, í anda þess hvernig tímarnir breytast og mennirnir með. Einn þeirra sprota í þjónustu sem risið hefur er Hundabaðstofan í Bolungarvík, lítið þjónustufyrirtæki í Bolungarvík sem tók til starfa í lok árs 2014. Þar tekur hundasnyrtirinn Helena Sævarsdóttir á móti hundum af öllum stærðum og gerðum til snyrtingar.

Þeir sem hafa farið með hundinn sinn til Helenu geta vitnað um að hjá henni er sannarlega nostrað við ferfætlingana sem til hennar koma og sýnir hún þeim mikla alúð og nærgætni. Helena er augljóslega mikil hundakerling og segir hún að hún hafi alltaf elskað hunda.

„Ég ólst upp með hundi í 12 ár sem var mín hægri hönd alla mína æsku og er ég mjög þakklát fyrir að hafa alist upp með hund á heimilinu. Ég hef alltaf átt hunda eða ketti því mér finnst lífið svo tómlegt án þess. Ég hef alltaf viljað vinna með hunda og kviknaði áhugi minn fyrir alvöru á hundasnyrtingum árið 2014.“ Segir Helena um tilurð þess að hún fór út í þetta til að byrja með. Hundasnyrtir er ekki löggild atvinnugrein á Íslandi svo það þarf ekki menntun til að verða hundasnyrtir, en hún hefur verið dugleg við að sækja sér þekkingu á faginu og lærði hún grunninn með því að fylgjast með hjá færum hundasnyrti og einnig fékk hún að æfa sig undir handleiðslu hans. Í framhaldi kom svo Internetið að góðum notum:

„Ég skráði mig í hundasnyrtikennslu á netinu og þar var hægt að fylgjast með tegundaklippingum og þess háttar. Þegar ég opnaði stofuna mína var ég ekki búin að æfa mig mikið sjálf svo fyrstu mánuðina var ég aðallega bara að æfa mig og var svo heppin að fá nokkuð marga hunda til mín af öllum stærðum og gerðum. En draumurinn er að fara erlendis og læra meira.“

Það getur verið mikil umbreyting á hundum við snyrtingu.

 

Hvernig hafa vestfirskir hundeigendur tekið þjónustunni?

„Lygilega vel, vægast sagt. Í mörgum tilfellum vill fólk bara prófa, en langflestir koma aftur. Svo eru margir smáhundar sem þurfa reglulega klippingu. Hundum hefur fjölgað alveg rosalega á Vestfjörðum og ég fæ hunda í snyrtingu frá öllum þorpunum hér í kring.“ Svarar Helena, sem vart hefur tíma til að líta upp úr feldunum þessa dagana þar sem nú er einn annamesti tími ársins, en vinsælt er að koma með hunda fyrir páska og jól og einnig eru svokallaðir niðurrakstrar vinsælir fyrir sumarið.

En hvernig taka hundarnir sjálfir þessu?

„Hundar eru auðvitað mismunandi karakterar, bara eins og fólk. Þegar hundar koma í fyrsta sinn eru þeir eðlilega hræddir og stressaðir, og þá sérstaklega við iðnaðarblásarann, en ég legg mig alla fram við að hafa snyrtinguna sem bærilegasta ef þeir eru mikið hræddir. Oftar en ekki gengur þetta bara mjög vel og langflestir hundarnir venjast mjög fljótt. Ég leyfi hundinum alltaf að skoða sig um, kynnast mér aðeins og sýni honum tækin og tólin sem ég nota á hann og þá gengur þetta yfirleitt mjög vel. Það þarf líka að öðlast þjálfun og æfingu í að geta róað hunda niður og þá sérstaklega stóra og sterka hunda og að vera ekki hrædd við að verða bitin. En hundar skynja okkur mannfólkið svo vel og sérstaklega þegar við erum stressuð, hrædd eða óörugg. En það eru nokkrir kúnnar hjá mér sem koma hoppandi glaðir inn á stofu, hoppa sjálfir upp í baðið og njóta þess að fá blástur og það gleður mig ekkert meira en að snyrta svoleiðis hunda.“

Helena segir að á Hundabaðstofunni séu lagðar áherslur á mannúðlegar snyrtiaðferðir fyrir alla hunda í rólegu umhverfi svo þeim megi líða sem best á meðan snyrtingu stendur og notast hún við hágæða hreinsivörur sem hentar hverri feldtegund fyrir sig svo ekki eru óþægindi af völdum efnanna sem notuð eru. Hundarnir eru skildir eftir hjá Helenu og sóttir að snyrtingu lokinni stroknir og fínir. Það sem meira er að nánast án undantekninga koma hundarnir alsælir úr snyrtingunni, líkt og þeir séu fullkomlega meðvitaðir um hversu fínir þeir eru.

Skínandi hreinir og fínir hundar fara heim að nýju eftir heimsókn á Hundabaðstofuna.

 

Kúnnahópur Hundabaðstofunnar hefur farið jafnt og þétt vaxandi frá því er Helena byrjaði að taka á móti hundum fyrir ríflega tveimur árum og segist hún afar þakklát og ánægð með þá þróun. Til að næla í tíma í yfirhalningu er hægt að panta í gegnum fésbókarsíðu Hundabaðstofunnar, sem og í síma 895-2625, einnig má fá hjá henni Brit care og Brit premium hágæðafóður fyrir bæði hunda og ketti.

annska@bb.is

DEILA