180 milljóna króna afgangur af rekstri Ísafjarðarbæjar

Samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta Ísafjarðarbæjar var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 179 milljónir króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir um 18 milljóna króna afgangi. Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2016 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn fyrir helgi.

Skuldaviðmið Ísafjarðarbæjar er nú komið niður í 114% og hefur ekki verið lægra frá því löngu áður en reglur um skuldaviðmið sveitarfélaga voru settar árið 2011, en sveitarfélögum er í dag ætlað að vera undir 150% í skuldaviðmiði.

„Þarna er um afbragðs góðan árangur að ræða – á sama tíma og rík áhersla hefur verið lögð á að bæta þjónustu við íbúa og sinna mikilvægum framkvæmdum.,“ segir í fréttatilkynningu Ísafjarðarbæjar.

Skuldaviðmið Ísafjarðarbæjar er nú komið niður í 114% og hefur ekki verið lægra frá því löngu áður en reglur um skuldaviðmið sveitarfélaga voru settar árið 2011, en sveitarfélögum er í dag ætlað að vera undir 150% í skuldaviðmiði.

Samkvæmt reglum um reikningsskil sveitarfélaga skiptist ársreikningur í tvo hluta, annars vegar er A-hluti, sem er almennur rekstur – að mestu fjármagnaður með skatttekjum, hins vegar er B-hluti sem eru stofnanir í eigu sveitarfélagsins og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Undir B-hluta fellur Hafnarsjóður, Vatnsveita, Fráveita, þjónustuíbúðir á Hlíf, Fasteignir Ísafjarðarbæjar, aðstaðan í Funa og fjármögnun Hjúkrunarheimilisins Eyrar.

Tap vegna Eyrar er um 38 milljónir króna og liggur skýringin grunnvísitölu sem heilbrigðisráðuneytið lagði til grundvallar leigu hjúkrunarheimilisins að lokinni byggingu þess. Að mati stjórnenda Ísafjarðarbæjar er þessi grunnvísitala óréttmæt en vísitalan er frá á miðju ári 2015, en öll grunnverð í samningnum eru frá árinu 2009. Tap Ísafjarðarbæjar af þessum sökum vegna framkvæmdarinnar nemur um 2-300 milljónum króna.

Rekstrarafkoma A hluta var jákvæð að fjárhæð 130 milljónum króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir um 43 milljóna króna halla. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 1.162 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 944 milljónum króna.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 4.403 milljón króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 4.196 milljónum króna. Rekstrartekjur A-hluta námu um 3.735 milljónum króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 3.540 milljónum króna. Munar þar mestu um að framlag Jöfnunarsjóðs var um 160 milljónum kr. hærra en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins og stofnana námu um 2.092 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins var um 288 stöðugildi í árslok.

smari@bb.is

 

 

DEILA