Vekja athygli á endómetríósu

Gula slaufan til styrktar Samtaka um endómetríósu

Vika endómetríósu stendur nú yfir á landsvísu, en um er að ræða vitundarvakningu á samnefndnum sjúkdómi sem einnig er þekkt sem legslímuflakk. Zontasamtökin og þar á meðal Zontaklúbburinn Fjörgyn á Ísafirði er meðal þeirra sem styðja samtök um endómetríósu við framkvæmd vikunnar. Fjörgyn hefur að auki ákveðið að styrkja samtökin fjárhagslega og þá munu Safnahúsið og höfuðstöðsvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði vera með gula lýsingu af þessu tilefni dagana 4.-10. mars auk fleiri bygginga bæði á höfuðborgarsvæði og um landið.

Um 10% kvenna hafa endómetríósu eða um 176 milljónir kvenna í heiminum. Sjúkdómnum geta fylgt miklar kvalir og ýmsir erfiðir fylgikvillar, þar á meðal meltingarvandræði og ófrjósemi og er greiningartími sjúkdómsins almennt langur, en meðalgreiningartími er 7-8 ár. Stuðningur og fræðsla er meginverkefni Samtaka um endómetríósu sem vinna ötullega að því að fræða almenning og heilbrigðisstarfsfólk um sjúkdóminn. Margar konur með endómetríósu finna fyrir vantrú annarra og þurfa enn þann dag í dag að berjast fyrir viðurkenningu á líðan sinni og einkennum.

Nánari upplýsingar um sjúkdóminn og viku endómetríósu er að finna á vef samtakanna endo.is. Þar má kaupa söluvarning líkt og gulu slaufuna til styrktar samtökunum og þar má einnig finna upplýsingar um málþing sem haldið er í tilefni vitundarátaksins í hringsal Landspítalans á miðvikudag. Einnig er hægt að styrkja samtökin beint með því að leggja inn á 0336-26-2650 og kennitala: 711006-2650.

annska@bb.is

DEILA