Veitustofnun Strandabyggðar stofnuð

Ljósleiðari plægður í jörð á Ströndum. Mynd: strandir.is

Sveitarstjórn Strandabyggðar áformar að stofna fyrirtækið Veitustofnun Strandabyggðar til að annast lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu. Sveitarstjórnin telur aðgang íbúa sveitarfélagsins að háhraða nettengingu vera þjónustu sem hefur almenna og  efnahagslega þýðingu. Veitustofnun Strandabyggðar verður rekin sem deild innan sveitarfélagsins – svokölluð b-hluta fyrirtæki – og því alfarið á ábyrgð sveitarfélagsins.

Inntak hinnar opinberu þjónustu sem Veitustofnun Strandabyggðar er ætlað að framkvæma og veita, er að tengja heimili, fyrirtæki og sumarhús í sveitarfélaginu, sem svo kjósa, við ljósleiðaranet (FTTH, e. Fiber To The Home) og mun gera öllum íbúum sveitarfélagsins mögulegt að hafa aðgang að háhraða ljósleiðaratengingu a.m.k. næstu 25 árin. Það svæði sem verkefnið tekur til skal vera afmarkað við sveitarfélagið Strandabyggð. Ljósleiðarakerfið verður alfarið í eigu sveitarfélagsins.

Strandabyggð fékk nýverið 11 milljóna kr. styrk úr Fjarskiptasjóði vegna ljósleiðaratenginga í sveitarfélaginu.

smari@bb.is

DEILA