Tíu fyrirtæki með helming kvótans

Tvö útgerðarfyrirtæki ráða yfir tæplega átján prósentum af öllum aflaheimildum í íslenska kvótakerfinu. Tíu fyrirtæki ráða yfir helmingi allra aflaheimilda. HB Grandi og Samherji, sem hafa verið kvótahæstu fyrirtæki landsins undanfarin ár, tróna enn á toppnum. Þetta kemur fram í samantekt Fiskistofu. Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. í Hnífsdal er 11. kvótahæsta fyrirtækið með kvóta upp á 12 þúsund þorskígildistonn sem jafngildir 3,07% af heildarkvótanum. Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík er næsta vestfirska fyrirtækið á listanum, með rúmlega 6 þúsund tonna kvóta og 18. kvótahæsta fyrirtæki landsins. Oddi hf. á Patreksfirði er í 31. sæti listans með 2.600 tonna kvóta.

Kvóti HB Granda er 43 þúsund þorskígildistonn og kvóti Samherja er 25 þúsund tonn. Þá er vert að geta þess að Samherji allt hlutafé í Útgerðarfélagi Akureyringa (8 þús. þorskígildistonn) og rétt tæplega helming í Síldarvinnslunni hf. (16 þús. þorskígildistonn). Síldarvinnslan á svo Berg-Huginn ehf. (5.500 þorskígildistonn). Í samantekt Fiskistofu er miðað við eigendur skipa þann 1. mars en um áramótin gekk í gildi samruni Síldarvinnslunnar og Gullbergs ehf. á Seyðisfirði sem hafði yfir að ráða 2.900 þorskígildistonnum. Gullberg hafði verið í fullri eigu Síldarvinnslunnar í rúm tvö ár.

smari@bb.is

DEILA