Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgar

Tilkynningum til Barnaverndarstofu hefur fjölgað.

Tilkynningum til barnaverndarnefnda á landinu fjölgaði um 9,1% á árinu 2016 miðað árið á undan, en alls bárust 9.310 tilkynningar er fram kemur í nýbirtu talnaefni Barnaverndarstofu. Aðeins einu sinni í sögu barnaverndar hér á landi hafa tilkynningar verið fleiri en það var í kjölfar bankahrunsins árið 2009 er 9.353 tilkynningar bárust. Tilkynningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 5,9%, en á landsbyggðinni um 17% miðað við 2015. Tilkynningar til barnaverndarnefndar verða að barnaverndarmáli ef tekin er ákvörðun um könnun máls í kjölfar tilkynningarinnar.

Flestar tilkynningar á árinu 2016 voru vegna vanrækslu líkt og árin á undan en hlutfall tilkynninga vegna vanrækslu var 39,5%. Tilkynningum um áhættuhegðun fækkar milli ára, en tilkynningum um ofbeldi fjölgar, mest vegna heimilisofbeldis. Flestar tilkynningar bárust barnaverndarnefndum frá lögreglu, eða 43,8% tilkynninga á árinu 2016, hlutfallið var 44,7% árið á undan og 44,2% á árinu 2014.

Meira um skýrslu Barnaverndarstofu má lesa hér.

DEILA