Svartklæddir kennarar sýna samstöðu

Kennarar á leikskólanum Eyrarskjóli mættu svartklæddir til vinnu í morgun til að sýna samstöðu með konum um allan heim, samstöðu í baráttu sinni fyrir kvenfrelsi í hverri þeirri mynd sem hún birtist. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna á síðasta ári mætti Marzena Glodkowska kennari á Bláakjarna svartklædd til að sýna samstöðu með konum í heimalandi sínu Póllandi en þá áformuðu pólsk yfirvöld að leggja algjört bann við fóstureyðingum með lagasetningu. Pólskar konur og kynsystur þeirra um víðan heim mótmæltu kröftuglega og var lögunum á endanum hafnað. En baráttunni fyrir frelsi kvenna yfir eigin líkama er ekki lokið. Víða um heim hafa komur ekki aðgang að getnaðarvörnum og ekki val um að stjórna barneignum sínum.

Í dag vilja kennarar á Eyrarskjóli standa við bakið á Marzenu með stuðningi í verki, jafnframt því sem þær standa með kynsystrum sínum í Póllandi og um heim allan. Í yfirlýsingu á heimasíðu skólans segja kennararnir vilja á alþjóðabaráttudegi kvenna leggja áherslu á eftirfarandi:

„Algjör grundvöllur kvenréttinda og jafnrétti kynjanna er sá að konur hafi yfirráð yfir eigin líkama, að konur hafi vald til að stjórna eigin lífi eins og þeim hentar best, að eignast börn þegar þeim hentar, að rjúfa þungun þegar þeim hentar. Kynfrelsi kvenna er því ein af grundvallarkröfum okkar allra sem berjumst fyrir jafnrétti kynjanna, grundvallarkröfum okkar allra sem berjumst fyrir mannréttindum og betra samfélagi.

Við stöndum nú frammi fyrir því að yfirvöld út um allan heim, líka í Evrópu, vinna skipulega og staðfastlega gegn þessum grundvallarmannréttindum kvenna, að stjórna eigin líkama. Yfirvöld út um allan heim hafa sett lög sem takmarka aðgang kvenna að læknisþjónustu, lög sem takmarka yfirráð kvenna yfir eigin líkama.“

annska@bb.is

DEILA