Súðvíkingar vilja frekara samstarf

Súðavíkurhreppur verður neyddur til sameiningar verði tillögurnar að veruleika. Mynd: Mats Wibe Lund.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps tekur vel í ósk Ísafjarðarbæjar um að kanna möguleika á nánara samstarfi eða sameiningu sveitarfélaganna. Sótt verður um styrk úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem verður notaður til að gera úttekt á kostum og göllum sameiningar og samstarfs.

Í bókun áréttar sveitarstjórn Súðavíkurhrepps að á þessu stigi málsins er enginn sérstakur vilji sveitarstjórnar til sameiningar sveitarfélaganna.

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að sækja um fyrrgreindan styrk Jöfnunarsjóðs með Ísafjarðarbæ enda sé það „ábyrgt og faglegt að skoða reglulega möguleika í kringum sveitarfélagið til að efla það , auka þjónustu og velferð við íbúana. Afurð þessarar vinnu verður notuð til þess að rýna í þessa möguleika alla,“ segir í bókuninni og bent á að ákvörðun um sameiningu og verði alltaf tekin af íbúunum sjálfum.

Niðurstöður vinnunnar verður síðan kynnt á íbúafundi í Súðavík.

smari@bb.is

DEILA